Rúmlega helmingur Íslendinga er fylgjandi því að ríkið greiði út listamannalaun. Hlutfall þeirra sem eru fylgjandi hefur aukist um yfir 7% síðan í febrúar 2013 og um yfir 14% síðan í mars 2010.
Þau sem styðja Framsóknarflokk og Sjálfstæðisflokk eru líklegust til að vera andvígir listamannalaunum, en þau sem styðja Samfylkingu og Vinstri græn eru líklegust til að vera fylgjandi því að ríkið greiði launin. Þetta eru niðurstöður nýrrar skoðanakönnunar MMR.
47 prósent svarenda eru andvígir því að ríkið greini listamönnum listamannalaun. Hlufallið hefur lækkað úr 61 prósenti frá árinu 2010 og 54 prósentum frá árinu 2013.
Mjög skiptar skoðanir eru varðandi listamannalaun þegar litið er til stuðnings stjórnmálaflokka. 77 prósent þeirra sem styðja Framsóknarflokk eru andvíg þeim og 68 prósent þeirra sem styðja Sjálfstæðisflokk. Hins vegar eru um 80 prósent þeirra sem styðja Samfylkingu og Vinstri græn fylgjandi því að ríkið greiði listamannalaun.
Yngra fólk á höfuðborgarsvæðinu er líklegra til að lýsa yfir stuðningi við listamannalaun heldur en aðrir og þar að auki eru heimili með milljón á mánuði eða meira í tekjur meira fylgjandi laununum heldur en tekjulægri hópar.
Könnun MMR var gerð dagana 12. til 20 janúar 2016.