Verðbólga hefur haldist undir 2,5 prósent verðbólgumarkmiði Seðlabanka Íslands undanfarin misseri og er útlit fyrir að sú þróun haldi áfram á næstu misserum, að því er segir í umfjöllun greiningardeildar Arion banka um verðbólguhorfur hér á landi. Jafnframt segir að útlit sé fyrir mestu kaupmáttaraukningu í langan tíma, og leita þarf aftur til ársins 1998, þegar miklir uppgangstímar voru í efnahagslífinu, til að finna viðlíka samanburð.
Ársverðbólga mælist nú 2,1 prósent. Vísitala neysluverðs lækkaði um 0,58%
milli mánaða í janúar. „Þegar horft er framhjá búvöru, grænmeti, bensíni og
ýmsum innfluttum vörum mælist kjarnaverðbólga 1 nú 2,5%. Áfram er útlit fyrir
litla verðbólgu næstu misseri, þrátt fyrir miklar launahækkanir, og í kjölfarið
má vænta meiri kaupmáttaraukningar en sést hefur í áratugi eða síðan 1998,“
segir í umfjöllun greiningardeildarinnar.
Helstu undirliðir sem lækkuðu voru föt og skór (-0,57% áhrif á VNV) og húsgögn
og heimilisbúnaður (-0,30% áhrif á VNV). Á móti hækkaði húsnæðisliðurinn
(+0,22% áhrif á VNV) og matarkarfan (+0,08% áhrif á VNV). Helst kom á óvart að
flugfargjöld til útlanda hækkuðu þvert á flestar spár (+0,04% áhrif á VNV).
Hækkunin á húsnæðisliðnum var meiri en spár höfðu gert ráð fyrir, þar sem fasteignaverð hækkaði meira en spár gerðu ráð fyrir og þá höfðu gjaldskrárhækkanir hjá Orkuveitu Reykjavíkur einnig áhrif til hækkunar.
Frá áramótum hafa verðbólguhorfur batnað töluvert, samkvæmt spá greiningardeildar Arion banka, og er gert ráð fyrir að verðbólga á þessu ári verði að meðaltali 2,2 prósent. Til samanburðar gerði hagvaxtarspá bankans frá því október ráð fyrir fjögur prósent verðbólgu og aðrar spár, meðal annars hjá Seðlbanka Íslands, gerðu ráð fyrir svipaðari verðbólgu.
Það sem helst hefur haldið verðbólgu í skefjum er stöðugra gengi krónunnar gagnvart erlendum myntum og þá hefur verð á Norðursjávarolíu lækkað um tólf prósent frá áramótum, í tæplega 34 Bandaríkjadali á tunnuna. Alþjóðabankinn hefur uppfært sína spá og gerir nú ráð fyrir að meðaltalsverð á olíunni verði 37 dalir á tunnuna í stað 51 dals í fyrri spá. „Gera má ráð fyrir að lækkun hráolíuverðs haldi áfram að skila sér út í verðlag á næstu mánuðum,“ segir í umfjöllun greiningardeildar Arion banka.