DV fær ekki afhenta starfslokasamninga sem gerðir voru við framkvæmdastjóra sem létu af störfum hjá RÚV árin 2013 og 2014. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur staðfest það, að því er fram kemur á vef RÚV.
Úrskurðarnefnd Alþingis telur að eingöngu útvarpsstjóri teljist til æðstu stjórnenda RÚV og því eigi upplýsingalög bara um hann. DV fjallaði um hækkun á rekstrargjöldum vegna yfirstjórnar RÚV í janúar í fyrra. DV sagði frá því að kostnaður við yfirstjórn hefði aukist um 100 milljónir, en eftir að Magnús Geir Þórðarson var ráðinn útvarpsstjóri var framkvæmdastjórn RÚV sagt upp störfum og störfin auglýst að nýju.
DV vildi fá að vita heildarupphæð starfslokagreiðslna RÚV á rekstrarárinu og hvernig þær greiðslur skiptust niður á fyrrverandi framkvæmdastjóra. Þegar RÚV hafnaði að veita þær upplýsingar kærði DV málið til úrskurðarnefndar um upplýsingamál. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál óskaði eftir því að fá starfslokasamningana í febrúar í fyrra, en RÚV svaraði ekki þeirri beiðni fyrr en í byrjun janúar á þessu ári. Í svarinu kom fram að synjun stofnunarinnar hefði byggt á því að forstöðumenn ríkisstofnana séu þeirra æðstu stjórnendur. Úrskurðarnefndin komst að sömu niðurstöðu í sínum úrskurði.