Guðni Ágústsson, fyrrverandi landbúnaðarráðherra Framsóknarflokksins, segist alls ekki vera að íhuga að bjóða sig fram til forseta í næstu kosningum. DV greindi frá því í morgun að hópur manna tengdum Framsóknarflokknum hafi tekið sig saman og sé að kanna landslagið fyrir framboði Guðna.
Guðni segist í samtali við Kjarnann aldrei hafa mátað sig við forsetaembættið.
„Ég las þetta bara í fjölmiðlum í morgun," segir Guðni, sem nú er staddur á Kanaíeyjum. „Ég hef aldrei látið mér detta í hug að bjóða mig fram til forseta. Það er alls ekki á dagskrá."
Guðni segir að nú sé þjóðin að hugsa og á Bessastaði verði að koma einhver sem geti fylgt í fótspor Ólafs Ragnars Grímssonar, maður eða kona.
„Það kemur jafnvel einhver sem gæti náð hreinum meirihluta. Það gerist eitthvað mikið í febrúar eða mars, það er ég viss um," segir hann. „Ég vil fá einhvern góðan og öflugan forseta sem verður einhvers konar blanda af Ólafi, Vigdísi, Kristjáni Eldjárn og Ásgeiri. Öllu þessu góða fólki. Ekki veitir af, því Íslendingar þurfa sterkt sameiningartákn sem róar þjóðina."