Heimildarmynd um móttöku flóttamannanna frá Sýrlandi hefur fengið styrki bæði frá ríkisstjórninni og þróunarvsamvinnuskrifstofu utanríkisráðuneytisins. Hvor styrkur um sig eru þrjár milljónir króna.
Eins og Kjarninn greindi frá í gær bar Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra tillöguna upp á fundi ríkisstjórnar í gær og var hún samþykkt einróma. Það er framleiðslufyrirtækið Skotta Film sem framleiðir myndina með Árna Gunnarsson, fyrrverandi formann Flóttamannaráðs, í fararbroddi. Árni er líka fyrrverandi aðstoðarmaður Páls Péturssonar og fyrrverandi varaþingmaður Framsóknarflokksins.
Árni segir við RÚV að hann hafi sótt um styrki hjá nokkrum menningarsjóðum en hafi ekki sótt um styrk úr kvikmyndasjóði Kvikmyndamiðstöðvar þar sem slíkt hefði tekið of langan tíma. Ef hann hefði haft tíma hefði hann hins vegar gert það.
Kolbrún Halldórsdóttir, forseti Bandalags íslenskra listamanna og fyrrverandi ráðherra VG, setur spurningamerki við styrkveitingu ríkisstjórnarinnar sem hún segir orka tvímælis. „Ríkisstjórninni er auðvitað í sjálfsvald sett hvernig hún fer með sína fjármuni - það hefði hins vegar verið betra að setja þessa umsókn í faglegan farveg,“ segir hún við RÚV. Formaður félags kvikmyndagerðarmanna, Hrafnhildur Gunnarsdóttir, segir styrkinn óvenjulegan og greinilegt að málið sé mikilvægt fyrir forsætisráðuneytið. Hún segir að leitað hafi verið til menntamálaráðuneytisins til að styrkja heimildarmyndaröðina Öldin hennar, en sá styrkur fékkst ekki.
Jóhannes Þór Skúlason, aðstoðarmaður forsætisráðherra, sagði við Kjarnann í gær að verkefnið hafi verið að gerjast í einhvern tíma.
„Árni fór til Líbanon og hefur fylgt fólkinu eftir, þá sérstaklega þeim hópi sem fór til Akureyrar,” segir hann. „Hugmyndin er að gera heimildarmynd um móttöku og aðlögun þessara hópa hér á Íslandi og hvernig aðlögun gengur.”
Að sögn Jóhannesar stendur einnig til að gera kennslumyndbönd fyrir skóla og nýta verkefnið á fleiri sviðum. Áætlað er að það taki um ár að gera.
Jóhannes bendir enn fremur á í samtali við RÚV að ríkisstjórnin hafi áður lagt sitt af mörkum til menningarverkefna - til að mynda fékk barnaóperan Baldursbrá styrk upp á 1,5 milljón fyrir sýningu. Ríkisstjórnin styrkti einnig óperuna Ragnheiði eftir Gunnar Þórðarson um þrjár milljónir þannig að hægt væri að taka hana upp.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra er sjálfur á leið til Líbanon, þar sem hann ætlar að kynna sér aðstæður flóttamanna og starf stofnana Sameinuðu þjóðanna og Rauða krossins á svæðinu. Síðar í vikunni fer hann svo til London á sérstakan leiðtogafund um málefni Sýrlands.