Hluti gagnanna um endurreisn bankakerfisins er trúnaðargögn vegna þess að þau hafa að geyma viðkvæmar fjárhagsupplýsingar um tilgreinda einstaklinga og lögaðila sem fjármálaráðuneytið má ekki gera opinber. Hluti gagnanna fjallar einnig um lögskipti sem ráðuneytið er ekki aðili að, þótt afrit af þeim séu að finna í ráðuneytinu. Þá er það ekki á ábyrgð fjármálaráðuneytisins hvernig farið er með trúnaðargögn sem send eru til Alþingis, heldur á ábyrgð þingsins.
Þetta kemur allt fram í tilkynningu frá fjármálaráðuneytinu, sem svarar með því gagnrýni frá Vigdísi Hauksdóttur, þingmanni og formanni fjárlaganefndar Alþingis, frá því um helgina.
Í Morgunblaðinu um helgina sagði Vigdís að verið væri að slá „svakalegri leynd“ yfir gögn um endurreisn bankakerfisins.
Gögn um stofnun nýju bankanna eru aðgengileg þingmönnum en engum öðrum, en Vigdís fann að því í blaðinu um helgina, og aftur í sjónvarpsþættinum Eyjunni í gær, að blaðsíður vantaði í gögnin. Meðal annars væri þar um að ræða fundargerðir. Hún segir augljóst að átt hafi verið við gögnin, sem sé refsivert og alvarlegt. „Svo þegar þau berast þinginu þá er það með þeim hætti að það er slegin á það trúnaður. Mjög líkt og gert var í Icesave-málinu. Þegar þetta gerist svo núna í annað sinn að það séu send gögn til þingsins og það merkt trúnaður og allir þingmenn hafa eftirlitsskyldu með framkvæmdavaldinu, þá get ég einfaldlega ekki sætt mig við það,“ sagði hún í Eyjunni.
Vigdís sagðist í Morgunblaðinu hafa beðið um fund með forseta þingsins í þessari viku til að ræða þessi mál. „Það er rosalega skrýtið að framkvæmdavaldið skuli geta sett þetta skilyrði gagnvart þingmönnum því alþingismenn allir hafa eftirlitsskyldu með framkvæmdavaldinu.“
Tvær fundargerðir týndar
Fjármálaráðuneytið greinir einnig frá því að það hafi látið stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis hafa öll umbeðin gögn áframs fleiri minnisblöðum og vinnugögnum.
„Bent hefur verið á að tvær fundargerðir af fundum stýrinefndar um samninga við erlenda kröfuhafa föllnu bankanna liggi ekki fyrir. Það er rétt, en eins og áður hefur komið fram hafa þessar fundargerðir ekki fundist. Eftir ítrekaða leit er það niðurstaða ráðuneytisins að skýringin sé sú að láðst hafi að halda fundargerðirnar í fjarveru ritara og þær því ekki til, sem er vissulega miður,“ segir í svarinu.
Þá segir ráðuneyið líka að þess hafi alltaf verið gætt í hvívetna að virða lög og reglur sem gilda um meðferð opinberra gagna.