Það á að flýta landsfundi Samfylkingarinnar um hálft ár og þar með formannskjöri. Þetta er mat Ólínu Kjerúlf Þorvarðardóttur, þingmanns Samfylkingar. Ástæðan er slakt fylgi flokksins í skoðanakönnunum undanfarin misseri.
Vísir greinir frá málinu. Í samtali við Kjarnann segir Ólína að staða flokksins sé orðin það slök að ekki verði unað við hana lengur.
Veikt formannsumboð flokknum til trafala
„Við erum flokkur sem lítur á sig sem burðarafl í íslenskri pólitík. Það verður að komast einhver hreyfing á innan flokksins og það verður að skerpa betur á því gagnvart almenningi fyrir hvað Samfylkingin stendur,” segir hún. „Það kann að vera að forystukreppa flokksins hafi áhrif þarna og sú staðreynd að formaðurinn hefur veikt umboð eftir síðasta landsfund. Það er augljóslega flokknum til trafala.”
Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, vann formannskosningu á síðasta landsfundi með einu atkvæði þegar Sigríður Ingibjörg Ingadóttir bauð sig fram á móti honum með afar skömmum fyrirvara.
Ólína segir að ásamt formannskjöri hafi flokkurinn gott af þeirri málefnavinnu sem fylgi landsfundi. Hann er á dagskrá í nóvember en hún vill flýta honum um hálft ár og halda hann í maí.
„Það eru kosningar vorið 2017 og það er allt of knappur tími fyrir flokkinn að standa í formannskosningum, sem geta verið erfiðar, og eiga svo á nokkrum mánuðum að kynna sig fyrir kosningar,” segir hún.
Samfylkingin hefur verið að mælast með sögulega lágt fylgi í skoðanakönnunum undanfarið. Í Gallupkönnun sem birt var í gær mældist hún með 9,2 prósent, hjá MMR sem birt var 20. janúar var fylgið 10,4 prósent og svo 9,9 prósent í skoðanakönnun Fréttablaðsins og Stöðvar 2 sem birt var 28. janúar.
Margir hæfir í formanninn
Ólína segir að vantraust á hefðbundnum stjórnmálaflokkum sé ríkjandi í könnunum nú, sem og innri vandi einstakra flokka eins og Samfylkingar.
„Flokkurinn hefur átt í vandræðum og málflutningur veikst, þó að það hafi sjaldan verið meiri þörf fyrir jafnaðarstefnu og nú,” segir hún.
Hún segist ekki vera að horfa til neinna sérstakra einstaklinga varðandi formannskjörið. Spurð hvort hún geti hugsað sér að leiða flokkin sjálf segir hún:
„Ég tel ekki tímabært að hugleiða það núna. En allir sem gefa kost á sér til forystustarfa í stjórnmálum, í þingi og sveitarstjórnum, hljóta að vera tilbúnir til að taka að sér þau störf sem þeim er trúað fyrir," segir hún. „En á meðan öllu er haldið í lömunarástandi eins og staðan er núna, þá kemur það fólk ekki fram. Fólk verður að fá tækifæri til þess án þess að það kosti leiðindi. Í Samfylkingunni eru margir vel til þess fallnir að leiða flokkinn.”
Frumvarp Sigríðar og Helga hressandi
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir og Helgi Hjörvar þingflokksformaður lögðu fram frumvarp í síðasta mánuði um afnám verðtryggingar. Frumvarpið hlaut ekki hljómgrunn meðal flokksins. Ólína segir að ekki sé hægt að gera þá kröfu að allir eigi að vera sammála.
„Þess vegna fannst mér frumvarp Helga og Sigríðar hressilegt innleg inn í stjórnmálaumræðuna og það sem flokkurinn stendur fyrir, þó að ég hafi ekkert endilega verið sammála því. Það er ekkert að því að þingmenn hafi sérstöðu í einstaka málum,” segir hún. „Við eigum að vera óhrædd við að vera ekki alltaf öll eins - svo framarlega sem við stöndum öll sameiginlega um þungamiðjuna sem er jafnaðarstefnan.”
Bjartsýn á að landsfundi verði flýtt
Til að flokkurinn nái aftur vopnum sínum fyrir næstu kosningar segir Ólína að nauðsynlegt sé að halda rétt á spilunum og það megi ekki dragast lengur að gera eitthvað í málunum. Hún segist hafa fengið góðan hljómgrunn vegna tillögunnar um að flýta landsfundi. Framkvæmdastjórn Samfylkingarinnar lagði fram sömu tillögu síðasta sumar en það náði aldrei lengra. Ólína er bjartsýn á að annað verði uppi á teningnum nú og segir mikilvægt að ná góðri samstöðu um það.