Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingar, segist gera ráð fyrir að gefa kost á sér áfram sem formaður ef komi til allsherjaratkvæðagreiðslu um forystu í flokknum.
„Ég er til í allsherjaratkvæðagreiðslu og formannskosningu hvenær sem er,” segir Árni Páll í samtali við Kjarnann. „Stofnanir flokksins meta það og ég mun ekki hafa afskipti af því.”
Umræðan staðið frá síðasta landsfundi
Framkvæmdastjórn Samfylkingarinnar vinnur nú að endurskoðun á lögum flokksins, meðal annars til að geta átt möguleika á að breyta tímasetningum á landsfundum. Umræða hefur skapast innan flokksins um að flýta komandi landsfundi, en samkvæmt lögum verður að halda þá á tveggja ára fresti. Einnig er verið að skoða hvort hægt sé að flýta formannskjöri í allsherjaratkvæðagreiðslu.
Sema Erla Serdar, formaður framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar, segir að umræðan hafi staðið yfir frá síðasta landsfundi. Þá vann Árni Páll formannsslag á móti Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur með einu atkvæði.
„Í fyrra var lögð fram tillaga í framkvæmdastjórn um að landsfundur yrði haldinn haustið 2016. En það náði ekki lengra því við erum með þessi löngu og ítarlegu lög sem tilgreina að landsfund skuli halda á tveggja ára fresti. Þar lá vandinn,” segir hún. „En í kjölfarið skoðuðum við að það er hægt að halda landsfund snemma árið 2017 en hægt væri að halda allsherjaratkvæðagreiðslu um formann 2016.”
Þungt að kyngja ítrekuðum skoðanakönnunum
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, þingmaður Samfylkingar, sagði í gær að hún vildi flýta landsfundi flokksins um hálft ár og þar með formannskosningu. Ástæðan er arfaslakt fylgi Samfylkingar í ítrekuðum skoðanakönnunum undanfarin misseri, en flokkurinn hefur verið að mælast með um 10 prósenta fylgi. Hún sagði lömunarástand ríkja meðal Samfylkingarinnar og enginn af því hæfa fólki innan flokksins vilji stíga fram og bjóða sig fram til formanns á meðan svo er.
Árni Páll segir flokkinn hafa verið í langvarandi lægð.
„Það er ekkert sem hreyfist upp á við hjá okkur, frekar en öðrum flokkum. Þetta er algjör kyrrstaða og hefur verið viðvarandi frá síðasta landsfundi.”
Sema segir málið hafa hangið allt of lengi yfir flokknum.
„Hlutirnir verða bara erfiðari og erfiðari og það er þungt að þurfa að kyngja hverri skoðanakönnun á fætur annarri með 10 prósenta fylgi,” segir hún. „Nú erum við að láta meta þessi lög til að sjá hvað við getum gert.”
Formaður verður að hafa skýrt umboð
Heimild er fyrir því að boða til aukalandsfundar, en á honum má þó ekki kjósa nýjan formann. Framkvæmdastjórn Samfylkingarinnar mun í kjölfarið negla niður dagsetningar og sjá hvort hægt sé að flýta formannskjöri með allsherjaratkvæðagreiðslu eða landsfundi. Vandamálið er að það þarf að kalla saman landsfund til að breyta lögum. Að sögn Semu eru lögin óþarflega ítarleg, hátt í 30 blaðsíður, og erfitt sé fyrir flokkinn að vinna með svo niðurnjörvað starfsumhverfi. Framkvæmdastjórnin ætli að klára málið sem fyrst.
„Það þarf að útrýma þessum lögum og skrifa ný,” segir hún. „Það væri löngu búið að afgreiða þetta mál ef ekki væri fyrir lögin. Næsti vetur er kosningavetur og það væri óeðlilegt ef lögin koma í veg fyrir að sá sem leiði flokkinn í gegn um næstu kosningar hafi skýrt umboð til þess.”