Samherji trónir í efsta sæti á lista Creditinfo yfir framúrskarandi fyrirtæki líkt og síðustu fjögur ár. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Creditinfo. Samherji hagnaðist um rúmlega ellefu milljarða króna á árinu 2014.
Á eftir Samherja koma síðan fyrirtækin Norðurál, Icelandair Group, Össur og Stálskip. Creditinfo veitti framúrskarandi fyrirtækjum viðurkenningar í Hörpu í dag fyrir rekstrarárið 2014, að viðstöddum Bjarna Benediktssyni, fjármála- og efnahagsráðherra. Að þessu sinni fengu 682 fyrirtæki viðurkenningu eða um tvö prósent af öllum skráðum fyrirtækjum á Íslandi.
Framúrskarandi
fyrirtækjum hefur fjölgað verulega en Creditinfo hefur birt lista framúrskarandi
fyrirtækja frá árinu 2010 en þá voru einungis 178 félög á listanum.
„Þessi fyrirtæki eiga það sammerkt að sýna stöðugleika í
rekstri og eru líkleg til að efla hag hluthafa og fjárfesta,“ segir í tilkynningu frá Creditinfo.
Sérstakir samstarfsaðilar Creditinfo vegna Framúrskarandi fyrirtækja eru Samtök atvinnulífsins, Samtök iðnaðarins, Samtök verslunar og þjónustu, Félag kvenna í atvinnulífinu og Viðskiptaráð Íslands.
Bjarni Benediktsson ávarpaði gesti og sagði að mikið hefði breyst í ytra umhverfi fyrirtækja á síðustu tveimur áratugum. Hann talaði um mikilvægi þess fyrir einstaklinga og fyrirtæki að safna upplýsingum um rekstrarstöðu fyrirtækja. „Vaxandi fjöldi fyrirtækja á lista Creditinfo sýnir að við Íslendingar erum að rétta úr kútnum,“ sagði fjármálaráðherra, að því er fram kemur í tilkynningu Creditinfo.
Ennfremur nefndi hann að nýir geirar væru að koma sterkir inn. „Það skiptir máli að nýjar stoðir styðji við efnahagslífið í landinu,“ sagði Bjarni .
Fjármálaráðherra afhenti fyrirtækjunum Kjarnepli, LS Retail og Högum, sérstök verðlaun. Kjarnepli fékk viðurkenningu fyrir að vera yngsta fyrirtækið á listanum en það var stofnað í september 2012, Hagar fyrir það að vera efst á lista yfir þau fyrirtæki sem koma ný inn í ár en félagið er í níunda sæti á listanum og LS Retail fékk viðurkenningu fyrir að færast upp um flest sæti á milli ára eða um 387 sæti, félagið er nú í 69. sæti á listanum.
Samkvæmt greiningu Creditinfo á rekstarárinu 2014 þá hefur dregið verulega úr vanskilum félaga. Í byggingastarfsemi og mannvirkjagerð fer hlutfallið úr 30% frá árinu 2012 niður í 20% á árinu 2014. Ennfremur er töluverð aukning fyrirtækja í fasteignaleigu á listanum og vanskilahlutfallið fer einnig ört lækkandi. Einnig fjölgar af félögum í ferðaþjónustu á listanum og afkoman í þeim geira fer batnandi. Lögaðilar í hlutafélagaskrá hérlendis eru 35.780, af þeim eru 5072 í vanskilum.
„Það er mjög jákvætt fyrir atvinnulífið að fyrirtækjum fjölgi á listanum, í ár bætast við rúmlega 100 ný fyrirtæki. Þessi fyrirtæki byggja á sterkum stoðum og eru ekki líkleg til að skapa kostnað fyrir samfélagið. Það felast því mikil verðmæti í þessum fyrirtækjum fyrir samfélagið í heild sinni. Það er ánægjulegt að sjá að viðurkenningin sé búin að öðlast sess í atvinnulífinu,“sagði Brynja Baldursdóttir framkvæmdastjóri Creditinfo á Íslandi.
Þau félög sem fá viðurkenningu Creditinfo sem framúrskarandi þurfa að uppfylla viss skilyrði er varða rekstur og stöðu þeirra. Félögin þurfa að vera skráð hlutafélög, hafa skilað ársreikningum síðustu þriggja ára, ennfremur þurfa líkur á alvarlegum vanskilum að vera undir 0,5% og félögin þurfa sýna fram á rekstrarhagnað síðustu þriggja ára, að því er fram kemur í tilkynningu Creditinfo. Jafnframt þarf eiginfjárhlutfall félaganna að vera 20% eða meira þrjú rekstrarár í röð og eignir þurfa að vera 80 milljónir eða meira þrjú ár í röð.