Julian Assange, forsprakki Wikileaks, hefur verið í ólögmætri refsivist eftir að hann hóf að halda til í sendiráði Ekvadors í London. Vinnuhópur um óréttmæta refsivist komst að þeirri niðurstöðu, samkvæmt heimildum BBC. Opinberlega verður greint frá niðurstöðunni á morgun. Þetta breytir því ekki að hann verður handtekinn af bresku lögreglunni ef hann yfirgefur sendiráðið.
Wikileaks-samtökin hafa sagt að þau bíði enn eftir formlegri tilkynningu um málið.
Assange flúði í sendiráðið árið 2012 til að komast hjá því að vera framseldur til Svíþjóðar, þar sem hans bíða ákærur um kynferðisbrot. Hann hefur óttast að vera framseldur þaðan til Bandaríkjanna. Assange kvartaði til nefndarinnar árið 2014, á þeim forsendum að hann sé í raun fangi af því að hann getur ekki yfirgefið sendiráðið.
Formlega verður tilkynnt að hvaða niðurstöðu nefndin hefur komist á morgun. Assange greindi frá því seint í gærkvöldi að ef nefndin úrskurðar honum í óhag ætli hann að yfirgefa sendiráðið og láta handtaka sig. Ef hins vegar nefndin hafi úrskurðað honum í hag búist hann við því að fá vegabréf sitt strax í hendurnar og að handtökuskipan á hendur honum verði felld úr gildi.
Handtökuskipun á hendur honum er enn í gildi, og ákvörðun nefndar Sameinuðu þjóðanna hefur ekki lagalegt gildi. Bresk stjórnvöld segja hins vegar að niðurstaðan breyti engu, Assange sé enn eftirlýstur vegna nauðgunar í Svíþjóð og því beri breskum stjórnvöldum að framselja hann. Sænsk stjórnvöld hafa látið tvö mál gegn honum niður falla, en alvarlegasta málið er enn í gildi.