Donald Trump hefur aðeins fjögurra prósenta forskot á helstu keppinauta sína í baráttunni um útnefningu Repúblikanaflokksins til forseta Bandaríkjanna, samkvæmt nýrri skoðanakönnun. Þetta er fyrsta skoðanakönnunin sem gerð var á landsvísu eftir kjörfundinn í Iowa á mánudag. Það er Public Policy Polling sem gerði könnunina, en í síðustu könnun þeirra vikuna fyrir jól mældist Trump með 34% fylgi.
Trump er nú með 25% stuðning samkvæmt könnuninni, á meðan bæði Ted Cruz og Marco Rubio mælast með 21% stuðning. Cruz var í efsta sætinu á kjörfundinum í Iowa en Donald Trump rétt hafði betur en Rubio.
Af öðrum frambjóðendum mælist Ben Carson best, með 11% fylgi, á meðan Jeb Bush, John Kasich og Rand Paul voru með fimm prósent, Chris Christie og Carly Fiorina með þrjú prósent hvort og Jim Gilmore með eitt prósent. Rick Santorum fékk 0,0 prósent í könnuninni, þar sem enginn aðspurðra valdi hann. Santorum er nú búinn að draga sig út úr baráttunni, rétt eins og Rand Paul.
Samkvæmt könnuninni hafa vinsældir Trump meðal kjósenda minnkað verulega á meðan Rubio virðist vera maður augnabliksins. Hann hefur farið úr 13% í 21 prósent á meðan Cruz er með nokkuð stöðugt fylgi jafnvel þótt hann hafi borið sigur úr býtum í Iowa.
Hjá demókrötum færir Bernie Sanders sig ofar á kostnað Hillary Clinton, en Clinton er engu að síður með mikið forskot, 53% gegn 32% Sanders.