Samráð olíufélaganna var staðfest í Hæstarétti Íslands rétt í þessu. Þetta kemur fram á vef RÚV. Hæstiréttur staðfesti úrskurð áfrýjunarnefndar samkeppnismála yfir olíufélögunum og olíufélögin þrjú, Ker, Skeljungur og Olís, þurfa að greiða 1,5 milljarða króna í sekt.
Málið teygir sig aftur til ársins 2004, þegar samkeppnisráð komst að þeirri niðurstöðu að Olís, Skeljungur og Olíufélagið, sem nú heitir Ker, hefðu öll gerst sek um alvarleg brot á samkeppnislögum. Í kjölfarið voru lagðar háar sektir á Olíufélögin sem kærðu ákvörðunina til áfrýjunarnefndar samkeppnismála.
Rúv vitnar í vef samkeppniseftirlitsins, sem segir að nefndin hafi staðfest aðalatriði samkeppnisráðs um brot á samkeppnislögum árið 2005. Einnig að olíufélögin skyldu greiða sekt að upphæð 1,5 milljarði króna.
„Sama ár skutu olíufélögin úrskurðinum til héraðsdóms Reykjavíkur en dómur í því máli féll ekki fyrr en í mars 2012. Héraðsdómur staðfesti að samráð hefði átt sér stað en úrskurður áfrýjunnarnefndar felldur úr gildi vegna brots á andmælarétti.
Þeim dómi áfrýjaði Samkeppniseftirlitið til hæstaréttar sem dæmdi í janúar 2013. Hæstiréttur taldi að vísa bæri dómi olíufélaganna alfarið frá vegna alvarlega galla í málatilbúnaði. Við það stóð úrskurður áfrýjunnarnefndar frá árinu 2005 óhaggaður.
Olíufélögin höfðuðu þá mál á ný til að fá úrskurði nefndarinnar hnekkt. Olíufélögin töpuðu því máli og áfrýjuðu til hæstaréttar sem staðfesti úrskurð áfrýjunnarnefdarinnar endanlega,“ segir RÚV.