Reykjanesbær hefur náð samkomulagi við einn stærsta kröfuhafa sveitarfélagsins, Eignarhaldsfélagið Fasteign ehf. Fram kemur í tilkynningu frá Reykjanesbæ að viðræður við félagið hafi skilað árangri og í kjölfarið muni vinna við fjárhagslega endurskipulagningu Reykjanesbæjar og stofnana þess halda áfram.
Rætt verður við aðra kröfuhafa á grundvelli viðræðna við kröfuhafa Eignarhaldsfélagsins Fasteignar og kapp verður lagt á að ljúka þeim eins fljótt og auðið er.
Fram kom í tilkynningu frá Reykjanesbæ í gær að veittur hafi verið frestur út daginn í dag, 5. febrúar, til stærsta kröfuhafa Reykjanesbæjar, kröfuhöfum Eignarhaldsfélagsins Fasteignar ehf., Glitni HoldCo ehf. f.h. Ríkissjóðs Íslands, Landsbankanum hf. og Íslandsbanka hf. til þess að bregðast við tillögu Reykjanesbæjar um afmörkun á skuldavanda sveitarfélagsins. Viðræður við kröfuhafa Eignarhaldsfélagsins Fasteignar ehf. hafa staðið yfir frá því í marsmánuði 2015 þegar tilkynnt var að Reykjanesbær hefði hafið viðræður um fjárhagslega endurskipulagningu bæjarins.
Haft er eftir Kjartani Má Kjartanssyni bæjarstjóra í tilkynningunni að viðræðum hafi miðað í rétta átt og ekki verði leitað eftir því að svo komnu máli að Reykjanesbæ verði skipuð fjárhagsstjórn.
Reykjanesbær, er eitt skuldsettasta sveitarfélag landsins. Skuldir þess voru tæplega 41 milljarður króna í lok árs 2014. Skuldirnar eru rúmlega 250 prósent af reglulegum tekjum sveitarfélagsins en samkvæmt sveitarstjórnarlögum sem tóku gildi árið 2012 þá er leyfilegt skuldahlutfall að hámarki 150 prósent. Skuldastaða Reykjanesbæjar er því beinlínis í andstöðu við lög.