Framkvæmdastjórn Samfylkingarinnar ákveður að öllum líkindum á miðvikudag hvort landsfundi verði flýtt og þar með formannskjöri með allsherjaratkvæðagreiðslu. Tímasetning landsfundar verði þá ákveðin að sama skapi.
Sema Erla Serdar, formaður framkvæmdastjórnar Samfylkingar, segir að vegna laga flokksins sé óljóst hvort hægt verði að flýta landsfundi og halda hann á þessu ári.
„Við erum að láta meta lög flokksins svo ákvörðunin sem tekin verður stangist ekki á við þau,” segir hún.
Hvenær sem landsfundur verður boðaður geta félagsmenn farið fram á allsherjaratkvæðagreiðslu um formann. Samkvæmt Semu getur sú atkvæðagreiðsla farið fram hvenær sem er, þó eigi síðar en 45 dögum fyrir landsfund.
„Líklegt er að sú krafa mun koma fram strax og tímasetning landsfundar hefur verið ákveðin og hann boðaður,” segir hún og bætir við að umræðan um formannskjör hafi staðið lengi yfir, bæði á meðal flokksmanna og innan framkvæmdastjórnar.
„Nú er kominn tími til að klára þetta mál,” segir hún. Væntanlega komi í ljós á miðvikudag hvort hægt verði að halda formannskosningu í vor eða í haust í tengslum við boðaðan landsfund.
Árni Páll vill vera formaður áfram
Reglur Samfylkingar um kjör formanns með allsherjaratkvæðagreiðslu eru ítarlegar. Allir skráðir félagsmenn flokksins sem eru 18 ára eða eldri eru kjörgengir til formanns og yfirlýsingu um framboð skal skila inn ásamt skriflegum meðmælum að minnsta kosti 20 skráðra félagsmanna úr hverju kjördæmi landsins. Framkvæmdastjórn ákveður svo hvort atkvæðagreiðsla verði rafræn eða atkvæði send í pósti.
Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingar, sagði í síðustu viku að hann væri til í allsherjaratkvæðagreiðslu hvenær sem er og býst ekki við öðru en að hann bjóði sig áfram fram til formanns.
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, þingmaður Samfylkingar, er þeirrar skoðunar að flokkurinn verði að bregðast við lélegu fylgi flokksins í skoðanakönnunum meðal annars með því að kjósa nýja forystu.