Á árunum 2005 til 2014 beitti embætti ríkislögreglustjóra
alls 26 sinnum heimild sem til staðar er í útlendingalögum til að taka fjármuni
eða flugmiða af útlendingum sem sendir voru burt frá Íslandi. Um var að ræða
lausafé eða gjaldeyri sem útlendingur var með í fórum sínum þegar lögregla
hafði afskipti af honum eða þegar málsmeðferð hans hófst. Heildarumfang þess
fjár er tæplega 2,6 milljónir króna. Það rann til ríkissjóðs. Frá þessu er
greint í Fréttablaðinu í dag.
Haldlagningin er gerð á grundvelli 56. grein útlendingalaga þar sem kveðið er á um að útlendingum sem vísað sé úr landi sé skylt að greiða eigin flugfargjöld. Í nýjum lagadrögum um endurskoðuð útlendingalög, sem þú eru í vinnslu, eru enn til staðar ríkar heimildir til að gera fjármuni útlendinga upptæka.
Dönum var líkt við nasista
Dönsk stjórnvöld hafa verið gagnrýnd víða um heim vegna umdeildrar innflytjendalöggjafar sem þau kynntu til leiks fyrir skemmstu. Á meðal þess sem löggjöfin heimilaði upprunalega var að lögregla eða tollverðir taki af flóttamenn reiðufé umfram þrjú þúsund krónur danskar (tæplega 60 þúsund íslenskar krónur). Auk þess verður heimilt að gera upptæka skartgripi sem fólk hefði með sér, meðal annars giftingahringi.
Víða í fjölmiðlum heimsins var aðgerðum Dana líkt við aðfarir nasista í seinni heimstyrjöldinni. Í kjölfar þeirrar reiðiöldu og gagnrýni sem Danir sættu vegna þessa var dregið nokkuð í land. Tilkynnt var að flóttamenn gæti haldið hringum og öðrum persónulegum munum, svo fremi sem þeir væru ekki úr hófi. Sú peningaupphæð sem hver og einn mætti koma með til landsins mætti auk þess nema tíu þúsund dönskum krónum, sem eru um 190 þúsund íslenskar krónur.
Fjallað var um dönsku innflytjendalöggjöfina í Kjarnanum 24. janúar síðastliðinn.