Bandaríski herinn mun hafa tímabundna aðstöðu á Keflavíkurflugvelli ef áætlanir hans fyrir næsta ár ganga eftir. Þetta kemur fram á fréttasíðunni Stars and Stripes, sem er gefin út á vegum hersins, en það var RÚV sem greindi frá málinu fyrst íslenskra miðla. Ætlunin er að fylgjast með rússneskum kafbátum í Norður-Atlantshafi.
Bandaríski herinn hefur samkvæmt fréttunum óskað eftir fjármagni á fjáráætlun varnarmálaráðuneytisins á næsta ári til þess að uppfæra flugskýli í Keflavík til þess að hægt sé að hýsa þar P-8 Poseidon flugvélar, en þær hafa komið í stað P-3 Orion vélanna sem voru staðsettar í herstöðinni í Keflavík þegar herinn var þar. Slíkar vélar eru reglulega sendar til Keflavíkur í eftirlitsflugi, samkvæmt upplýsingum frá sjóhernum.
Utanríkisráðuneytið sendi frá sér tilkynningu vegna fréttanna þar sem kemur fram að engar viðræður eigi sér stað á milli Íslands og Bandaríkjanna um varanlega staðsetningu bandarísks liðsafla á Íslandi. „Hins vegar er ljóst að umhverfi öryggismála í Evrópu hefur breyst mikið á umliðnum árum og, í því ljósi, eins og utanríkisráðuneytið hefur áður greint frá, hafa eðlilega átt sér stað samtöl um mögulega aukin umsvif Bandaríkjanna og annarra ríkja Atlantshafsbandalagsins á norðanverðu Atlantshafi og Íslandi í samræmi við sameiginlegar varnarskuldbindingar,“ segir í tilkynningu frá ráðuneytinu.
Sem stendur hefur herinn aðeins áhuga á því að senda eftirlitsvél í stuttan tíma í senn, en með tímanum gæti það orðið varanleg eftirlitsstöð hersins.
Bandaríska sendiráðið á Íslandi staðfesti ekki þessar fréttir en sagði við RÚV í kvöld að stöðugar viðræður hefðu átt sér stað um flugstöðina í Keflavík. Greint var frá því snemma í haust að aðstoðarvarnarmálaráðherrann Bob Work hefði skoðað herstöðina í Keflavík í heimsókn sinni hingað til lands.
Í viðtali við Kjarnann í haust sagði Benjamin Ziff, aðstoðarutanríkisráðherra Bandaríkjanna, að ekki væri tímabært að tala um opnun herstöðvar á Íslandi. „Ég veit að hingað hafa komið embættismenn til að skoða þennan möguleika. Staða Íslands í Norður-Atlantshafi, og sú staðreynd að innviðirnir eru til staðar og þeim hefur verið vel við haldið af Íslendingum frá 2006, þegar við fórum frá Keflavík, sýna að ef þörf krefur er Ísland í góðri stöðu til að taka þátt á breiðari hátt í aðgerðum Nató, en þessar ákvarðanir hafa ekki verið teknar.“