Dómarafélag Íslands hefur ákveðið að leggja fram formlega kvörtun við siðanefnd Blaðamannafélags Íslands og fjölmiðlanefnd vegna fyrirsagnar sem birtist í Fréttablaðinu síðastliðinn föstudag. Fyrirsögnin var: „Laun hækkuðu um 38% í fyrra“.
Í fréttinni kom fram að laun dómara hefðu hækkað um 18 prósent vegna ákvörðunar kjararáðs viku fyrir jól en eftirlaun dómara og makalífeyrir þeirra hefði hækkað um 26 prósent. Þar sagði síðan: „Lífeyrir dómara á eftirmannsreglu hækkuðu um 9,3 prósent samkvæmt úrskurði kjararáðs frá 17. nóvember 2015. Úrskurðurinn frá 17. desember hafði í för með sér rúmlega 26 prósent hækkun sem fyrr greinir. Samtals var hækkunin rúmlega 38 prósent vegna þessara tveggja úrskurða."
Í áréttingu sem birtist í Fréttablaðinu í gær sagði að árréttað skyldi að fréttin hefði fjallað um að eftirlaun dómara hefðu hækkað um 38 prósent í fyrra. Það hefði komið fram í umræddri frétt. Í netútgáfu fréttarinnar er fyrirsögn önnur en sú sem birtist í prentútgáfu Fréttablaðsins.
Dómarafélag Íslands telur áréttinguna algjörlega ófullnægjandi og að frumkvæði Skúla Magnússonar, formanns félagsins, hefur það ákveðið að leggja fram formlega kvörtun við siðanefnd Blaðamannafélagsins og fjölmiðlanefnd vegna málsins.
Skúli skrifaði grein um málið sem birtist á Vísi.is á föstudag. Þar segir hann að sú fullyrðing sem haldið sé fram í fyrirsögn Fréttablaðsins sé í besta falli hálfsannleikur. Laun dómara hefðu ekki hækkað um 38 prósent á árinu 2015 heldur hafi það verið grunnlaun dómara sem hækkuðu um þá prósentu. „Með úrskurði kjararáðs 17. desember sl. hækkuðu heildarlaun dómara um 8% og kom sú hækkun til viðbótar almennri 9,3% hækkun þeirra sem heyra undir kjararáð[...]Fréttin í Fréttablaðinu í dag er í fjórða sinn frá 31. janúar sl. sem blaðið gerir launamál dómara að umtalsefni og lætur að því liggja að þeir hafi fengið meiri hækkanir launa en stenst skoðun. Við vinnslu umræddra frétta hefur aldrei verið leitað viðbragða Dómarafélags Íslands eða annarra sem gætu varpað ljósi á málið frá sjónarhóli dómara. Þessi vinnbrögð Fréttablaðsins valda vonbrigðum.“ segir í grein Skúla.