Endurupptökunefnd hefur hafnað beiðnum Ólafs Ólafssonar, Hreiðars Más Sigurðssonar og Sigurðar Einarssonar um endurupptöku Al Thani málsins. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Ólafi Ólafssyni. Úrskurðirnir hafa ekki verið gerðir opinberir.
Sigurður Einarsson er fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings, Hreiðar Már Sigurðsson fyrrverandi forstjóri Kaupþings og Ólafur Ólafsson átti tæplega tíu prósent hlut í Kaupþingi fyrir fall hans. Þeir voru allir dæmdir sekir í Al-Thani málinu í Hæstarétti fyrir tæpu ári síðan. Hreiðar Már fékk fimm og hálfs árs fangelsi, Sigurður fjögur ár, og Ólafur fjögur og hálft ár. Magnús Guðmundsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings í Lúxemborg, var líka dæmdur í fjögurra og hálfs árs fangelsi í málinu.
Í tilkynningu frá KOM almannatengslum, fyrir hönd Ólafs Ólafssonar, kemur fram að það séu Ólafi og fjölskyldu hans „veruleg vonbrigði“ að beiðninni hafi verið hafnað. Færð hefðu verið ítarleg rök fyrir því að verulegar líkur væru á að sönnunargögn hefðu verið rangt metin.
Rökstuðningur endurupptökunefndar hafi verið ófullnægjandi að hans mati. Haft er eftir Þórólfi Jónssyni, lögmanni Ólafs, að það hefði átt að fallast á beiðnina við þær aðstæður sem uppi hafi verið. „Slíkur vafi er uppi um að símtal sem sakfelling byggðist að stórum hluta á hafi verið rétt túlkað að nefndin hefði að mínu mati átt að fallast á að málið yrði tekið fyrir að nýju.“ Hörður Felix Harðarson, lögmaður Hreiðars Más, segir í tilkynningunni að þetta valdi Hreiðari vonbrigðum og ályktanir um hlutdeild Ólafs hafi skipt sköpum í málinu.
Deilurnar um annan Óla
Helsta ástæðan fyrir beiðni Ólafs var sú að í dómi Hæstaréttar voru sönnunargögn í málinu ranglega metin, að mati Ólafs. Að hans mati var rangt mat lagt á símtal tveggja manna, þar sem annars þeirra vísar til samtals við mann sem kallaður var Óli. Þetta sagði Ólafur að væri metið í dómum sem um hann væri að ræða en það væri í raun verið að tala um Ólaf Arinbjörn Sigurðsson lögmann. „Ekkert annað í málinu sýnir fram á meinta vitneskju Ólafs um þessi atriði. Þessi ranga forsenda er hornsteinninn að sakfellingu Ólafs í dómi Hæstaréttar sem telur að á grunni símtalsins sé hafið yfir skynsamlegan vafa að Ólafur Ólafsson skyldi njóta arðs til jafns við Al Thani,“ sagði í yfirlýsingu.
Undir þetta tóku Hreiðar og Sigurður en þeirra endurupptökubeiðni Hreiðars og Sigurðar byggist annars vegar á því að Árni Kolbeinsson, einn dómenda málsins í Hæstarétti, hafi verið vanhæfur og hins vegar á því að sönnunargögn hafi verið metin rangt.
Árni Kolbeinsson var skipaður varadómari í málinu að því er fram kemur þar. Málflytjendum hafi verið tilkynnt í desember í fyrra að eiginkona hans, Sigríður Thorlacius, hafi setið í stjórn Fjármálaeftirlitsins fram í janúar 2009. Fjármálaeftirlitið var með Al Thani-málið til rannsóknar á þeim tíma. Þá var óskað eftir því að málflytjendur gerðu athugasemdir við setu Árna ef þeir hefðu þær, en svo var ekki gert.Nú segja Hreiðar og Sigurður hins vegar að eftir að dómur var genginn í malinu hafi komið fram upplýsingar um að sonur Árna hefði starfað sem forstöðumaður lögfræðisviðs slitastjórnar Kaupþings frá 2008 og 2013. Þetta hafi verið nýjar upplýsingar sem ekki hafi verið upplýst um. Hagsmunir slitastjórnar Kaupþings af sakfellingu þeirra í málinu hafi verið augljósir.
„Svo virðist sem sonur dómarans hafi sinnt störfum fyrir slitastjórn Kaupþings þegar dómarinn tók sæti í málinu og dæmdi það. Líklegt er að sonurinn hafi tekið þátt í ákvörðunum um að stefna Hreiðari Má og Ólafi til greiðslu skaðabóta en sú ákvörðun hefur verið byggð á sömu atvikum og fjallað var um í hæstaréttarmálinu. Hafði hann, ásamt slitastjórn Kaupþings, því hagsmuna að gæta af niðurstöðu málsins. Kunna þeir hagsmunir að vera fjárhagslegir og umtalsverðir í ljósi ofangreinds um mögulegar kaupaukagreiðslur til hans,“ segir í endurupptökubeiðninni. Þetta sé til þess fallið að vekja upp réttmætar efasemdir um óhlutdrægni Árna.