Ríkið nær aldrei að innheimta nema um 10 til 15 prósent af heildarskuldum vegna lögbrota ár hvert. Útistandandi skuldir vegna ársins 2014 eru sjö og hálfur milljarður króna.
Yfirleitt er hlutfall þeirra sem greiða sektir sínar svipað og hlutfall þeirra sem afplána þær með fangelsisvist eða samfélagsþjónustu, samkvæmt upplýsingum frá sýslumannsembættinu á Norðurlandi vestra.
Tæpur milljarður afskrifaður
Íslenska ríkið afskrifaði 979 milljónir vegna sekta og sakarkostnaðar sem ekki náðist að innheimta á árunum 2012 til 2014. Sektarfjárhæðir hafa hækkað á undarförnum árum og hefur fjárhæð afskrifta aukist í samræmi við það.
Samkvæmt upplýsingum frá sýslumannsembættinu á Norðurlandi vestra, sem sér um alla innheimtu sekta og sakarkostnaðar á landinu, ákveða þeir sem fá sektir ekki sjálfir að afplána vararefsingu, heldur en ákvörðun um slíkt tekið þegar innheimta hefur verið metin fullreynt eða þýðingarlaus. Sakarkostnaður og sektir eru einnig innheimtar með fjárnámi eða nauðungarsölum ef ekki er samið um greiðslur.
Afskriftir vegna brota hafa að sama skapi aukist á undanförnum árum og hlutfallið hækkað. Árið 2012 voru afskriftir tvö prósent vegna sekta og sakarkostnaðar en árið 2014 var hlutfallið sjö prósent. Alls voru afskrifaðar 124 milljónir árið 2012 en upphæðin hafði þrefaldast tveimur árum síðar, þegar 570 milljónir voru afskrifaðar þar sem ekki náðist að innheimta.
8,1 milljarður í sektir
Upphæðir sem íslenska ríkið reynir að innheimta vegna sakamála hafa hækkað mikið undanfarin ár. Árið 2014 voru sektir og sakarkostnaður vegna lögbrota rúmlega 8,1 milljarður króna, sem er um tveimur milljörðum meira en árið 2012. Það ár námu sektir og sakarkostnaður 6,2 milljörðum króna. Eins og áður segir, næst aldrei að innheimta nema lítinn hluta upphæðanna.
Árið 2014 voru afskrifaðar 570 milljónir króna og 900 milljónir voru afgreiddar með afplánun í stað borgunar. Afplánun getur bæði verið fangelsisvist eða samfélagsþjónusta. Alls fékk ríkið þá greitt 6,7 milljarða króna í sektir og sakarkostnað vegna lögbrota.
Upphæðir sem lögbrjótar ákváðu að afplána í stað þess að borga voru 600 milljónir árið 2012 en 900 milljónir árið 2014. Einungis er hægt að afplána sektir, en sakarkostnað verður alltaf að borga með peningum.
Sakarkostnaður hefur líka aukist undanfarin ár að sama skapi, en ekki eins mikið og sektirnar. Árið 2012 nam sakarkostnaður alls tæpum tveimur milljörðum en árið 2014 var hann rúmlega tveir og hálfur milljarður.
Brýnt að efla innheimtuaðgerðir
Í umsögnum um frumvarp innanríkisráðherra til breytinga á lögum um fullnustu refsinga kemur fram, meðal annars frá Fangelsismálastofnun og Sýslumanninum á Norðurlandi vestra, að nauðsynlegt sé að efla innheimtuúrræði til muna til að unnt sé að innheimta sektir með árangursríkari hætti. Stofnunin telur að veita eigi heimild til launaafdráttar eins og tíðkast til dæmis í Noregi.
„Þá hefur Ríkisendurskoðun ítrekað bent á að efla þurfi innheimtu sekta m.a. með því að lögfesta þurfi heimild til að halda eftir hluta launa dómþola og bæta aðgengi að fjárhagsupplýsingum,“ segir í umsögn Fangelsismálastofnunar. Afstaða, félag fanga, tekur undir í umsögn sinni að launaafdráttur væri æskileg leið en undirstrikar að dagpeninga fanga megi ekki skerða.