RÚV fær ellefu tilnefningar til Edduverðlaunanna í ár, auk þess sem nokkrir þættir til viðbótar sem sýndir voru á RÚV en framleiddir af öðrum fá tilnefningu til verðlaunanna. 365 miðlar tilnefndu hins vegar ekkert af sínu efni til verðlaunanna, því eins og Kjarninn hefur greint frá sagði fyrirtækið sig úr Íslensku kvikmynda- og sjónvarpsakademíunni (ÍKSA), sem heldur verðlaunin. Engu að síður eru þættir sem sýndir voru á Stöð 2 tilnefndir til verðlaunanna, en það eru þættir sem voru framleiddir af öðrum en 365.
Sjónvarpsserían Réttur, sem sýnd var á Stöð 2 en framleidd af Sagafilm, fær átta tilnefningar til verðlaunanna, flestar tilnefningar allra sjónvarpsþátta. Sjónvarpsserían Ófærð er tilnefnd í fjórum flokkum, en hún var framleidd af RVK Studios og er nú í sýningu á RÚV. Báðar seríurnar eru tilnefndar sem besta leikna sjónvarpsefnið, ásamt Blóðbergi, sem Vesturport framleiddi og var sýnd á Stöð 2.
Þrír þættir á RÚV eru tilnefndir sem frétta- eða viðtalsþættir ársins. Það eru Kastljós, Landinn og Þú ert hér. Þátturinn Orka landsins á N4 er tilnefndur sem og þáttaröðin Við öll, sem auglýsingastofan PIPAR/TBWA gerði. Við öll fór í sýningu á Facebook.
Í flokknum lífstílsþáttur ársins eru fimm þáttaraðir tilnefndar, tvær voru sýndar á Stöð 2 en þrjár á RÚV. Það eru Hæpið og Ævar vísindamaður, sem RÚV framleiddi einnig, og Ferð til fjár sem Sagafilm framleiddi. Þáttaraðirnar Atvinnumennirnir okkar og Hið blómlega bú, sem sýndir voru á Stöð tvö en framleiddir af Stórveldinu annars vegar og Búdrýgindum hins vegar, eru einnig tilnefndar.
Þættir sem sýndir voru á RÚV fá fjórar tilnefningar í flokknum menningarþáttur ársins. Það eru Kiljan, Með okkar augum, Toppstöðin og Öldin hennar, en þrír síðastnefndu þættirnir voru allir framleiddir af Sagafilm. Fimmti þátturinn sem er tilnefndur er Að sunnan, sem var framleiddur af Sigva media og N4, þar sem þátturinn var sýndur.
Fjórar af fimm tilnefningum í flokknum skemmtiþáttur ársins voru einnig sýndar á RÚV, en sú fimmta, Hindurvitni, var framleidd af Ísaland Pictures og sýnd á Stöð 2. Aðrar tilnefningar eru Árið er: Söngvakeppnin í 30 ár, Hraðfréttir og Þetta er bara Spaug...stofan sem RÚV framleiddi, og Drekasvæðið í framleiðslu Stórveldisins, sem var sýnt á RÚV.
Þá voru öll þrjú efnin sem eru tilnefnd í flokki barna- og unglingaefnis sýnd á RÚV. Það eru þættirnir Krakkafréttir og Ævar vísindamaður, auk þáttarins Klukkur um jól sem Hreyfimyndasmiðjan gerði.
365 hætti vegna ójafns atkvæðavægis
Kjarninn greindi frá því í nóvember að 365 hefði sagt úr akademíunni. Jón Gnarr, framkvæmdastjóri dagskrársviðs fyrirtækisins, sagði þá að RÚV hefði haft 70% vægi í dómnefnd verðlaunanna en 365 hafi borið helming kostnaðarins.
Þessu höfnuðu forsvarsmenn Eddunnar, og sögðu fullyrðingar Jóns rangar og fjarstæðukenndar.
Á síðustu Edduverðlaunahátíð, sem fór fram í febrúar 2015, fékk Stöð 2 engin verðlaun. Sjónvarpsþættir og –fólk RÚV sópuðu hins vegar til sín verðlaunum. RÚV vann nánast alla flokka sem stöðin gat unnið. Ævar vísindamaður vann sem besta barna- og unglingaefni ársins, Landinn sem frétta- eða viðtalsþáttur ársins, Hraunið sem leikið sjónvarpsefni ársins, Hæpið sem lífstílsþáttur ársins, Vesturfarar sem menningarþáttur ársins, Orðbragð sem skemmtiþáttur ársins og Brynja Þorgeirsdóttir frá RÚV var valin sjónvarpsmaður ársins. Þá fékk Ómar Ragnarsson, sem undanfarin ár hefur unnið fyrir RÚV, heiðursverðlaun Eddunnar árið 2015.
Hrútar með 13 tilnefningar
Kvikmyndir Hrútar er með 13 tilnefningar, kvikmyndir Fúsi með tólf tilnefningar og Þrestir ellefu tilnefningar. Allar eru tilnefndar sem besta kvikmyndin. Tilnefningarnar má lesa allar á vefsíðu Eddunnar.