Zúistar á Íslandi hafa látið fresta greiðslum til félagsins tímabundið þar sem þeir fá ekki að skrá rekstrarfélag hjá ríkisskattstjóra. Forsvarsmenn félagsins stefna á að byrja á að endurgreiða fyrstu sóknargjöldin á seinni hluta ársins, en útreikningar á upphæð endurgreiðslunnar þegar tekið hefur verið tillit til vaxta, umsýslukostnaðar og fleira verður á hendi endurskoðanda.
„Við höfum fundað með endurskoðandanum og hann telur að endurgreiðslan verði ekki mikið mál frá þeim séð. Við höfum hinsvegar rekið okkur á það að ekki eru allir eins samvinnuþýðir því við lenntum í vandræðum með að fá skráð rekstrarfélag hjá Ríkisskattstjóra,” segir í svari Zúista við skriflegri fyrirspurn Kjarnans. „Þar strandar málið því í augnablikinu á meðan við leysum úr því og í millitíðinni höfum við látið fresta greiðslum til félagsins.”
Í svarinu segir að þegar það verði leyst verði gengið endanlega frá samningum við endurskoðandann og í kjölfarið verður send tilkynning þar sem fyrirkomulag endurgreiðslunnar verður kynnt.
Holger Páll Sæmundsson, sem situr í stjórn Zúista, segist vera gríðarlega ánægður með viðtökurnar sem félagið hefur fengið.
„Þegar við fórum af stað töldum við okkur vera að berjast fyrir mikilvægu málefni sem gæti höfðað til ákveðins hóps í samfélaginu. Samkvæmt skráningu þjóðskrár þá höfðu um áramótin tæplega 3200 manns skráð sig í Zuism eða um 1% þjóðarinnar. Það er óhætt að segja að skráningin hafi farið langt fram úr björtustu vonum," segir hann. „Við vinnum nú í því að ganga frá endanlegu fyrirkomulagi endurgreiðslunnar. Það hefur tekið lengri tíma en til stóð en við vonumst til að geta sent frá okkur tilkynningu um fyrirkomulagið mjög fljótlega. Við stefnum að því að fyrsta endurgreiðsla fari fram í haust."
Tæplega 3.200 manns gengu í trúfélagið á síðasta fjórðungi ársins 2015. Þaðan komu rúmlega þúsund einstaklingar frá þjóðkirkjunni.
Zúistar komu fram á sjónarsviðið seinni hluta síðasta árs með það höfuðmarkmið að hið opinbera felli úr gildi öll lög sem veita trú- og líffskoðunarfélögum forréttindi eða fjárstyrki umfram önnur félög. Þá endurgreiðir félagið öllum skráðum meðlimum árlegan styrk sem það fær frá ríkinu. Alls gengu 3.176 einstaklingar í félagið á síðasta fjórðungi ársins, en Þjóðskrá hefur ekki birt nýrri tölur síðan þá. Þar af komu 1.056 úr þjóðkirkjunni og 1.652 sem voru áður utan trúfélaga.