Ákveðið hefur verið að HS Veitur kaupi hlutabréfa af eigendum sínum fyrir hálfan milljarð króna. Þetta verður lagt fyrir á hluthafafundi sem haldin verður 19. febrúar næstkomandi. Verði greiðslan samþykkt mun Reykjanesbær fá 250,5 milljónir króna út, HSV Eignarhaldsfélag slhf, sem er í eigu Heiðars Guðjónssonar og tengdra aðila, fær 171,9 milljónir króna, Hafnarfjarðarbær fær 77 milljónir og Sandgerðisbær 500 þúsund krónur. Frá þessu er greint í Fréttablaðinu í dag.
Ár er síðan að eigendur HS Veitna fóru þessa sömu leið, að láta fyrirtækið kaupa af sér hlutabréf og lækka hlutafé fyrirtækisins í staðinn. Í fyrra var upphæðin hins vegar hærri, eða 2,5 milljarðar króna, og HS Veitur tók lán til að greiða hana út. Með því að lækka hlutafé samhliða kaupum af hluthöfum félagsins í stað þess að greiða út arð koma hluthafar HS Veitna sér undan skattgreiðslum vegna arðgreiðslna, en ef bókfært verð hlutabréfa er hærra eða það sama og söluverðið verður ekki til skattskyldur söluhagnaður. Af arðgreiðslum þarf hins vegar að greiða 20 prósenta fjármagnstekjuskatt.
Á tveimur árum hafa skattgreiðendur því orðið af 500 milljónum króna vegna þess að hluthafar HS Veitna ákváðu að fara þessa leið í stað þess að greiða sér út arð.
Gáfu út skuldabréf í fyrra
Stjórn HS Veitna keypti hlutafé að nafnvirði 262,1 milljón króna í fyrra fyrir tvo milljarða króna. Samhliða var hlutafé fært niður. Gengið var frá gjörningnum á aðalfundi félagsins í mars 2015. Ef milljarðarnir tveir hefðu verið teknir út úr HS Veitum sem arðgreiðsla, ættu skattgreiðslur því að nema um 400 milljónum króna.
Til að fjármagna hlutabréfakaupin í fyrra gaf HS Veitur út skuldabréfaflokk upp á 2,5 milljarða króna að nafnvirði. Í Fréttablaðinu í dag er haft eftir Júlíusi Jónssyni, forstjóra HS Veitna, að ekki þurfi frekari skuldsetningu til að standa að hlutabréfakaupunum í ár.
Reykjanesbær á um helmingshlut í HS Veitum og tók um milljarð af fénu til sín í fyrra. Í ár rennur 250,5 milljónir króna til sveitafélagsins. Hafnarfjarðarbær á fimmtán prósenta hlut og fékk 300 milljónir króna í fyrra. Í ár fær hann um 77 milljónir króna.
34 prósent í HS Veitum er í eigu HSV ehf., einkahlutafélags í eigu Heiðars Más Guðjónssonar fjárfestis, lífeyrissjóða og fleiri, og fékk félagið um 600 milljónir króna í sinn hlut árið 2015. Í ár fær það 171,9 milljónir króna. Félagið keypti hlutinn í HS Veitum árið 2014 á 3,1 milljarða króna.