Endurnýjanlegir orkugjafar eins og jarðvarmi eru talin ein helsta ástæða þess að orkunotkun á Íslandi hefur aukist undanfarin ár. Á sama tíma hefur orkunotkun á hinum Norðurlöndunum staðið í stað. Á Íslandi skýrir orkufrekur iðnaður að stórum hluta mikla orkunotkun sem þó vegna umhverfisvænna orkugjafa er grænast allra Norðurlandanna. Þetta kemur fram í nýrri samanburðarskýrslu um Norðurlöndin sem birt var í morgun.
Ísland trónir líka á toppnum þegar hlutfallslegur styrkur í útblæstri gróðurhúsalofttegunda er skoðaður. Útblástur jókst gífurlega á árunaum 2005 til 2008, en þá tók að draga úr honum á ný. Þá fjallar skýrslan einnig um aukna notkun kjarnorku í Svíþjóð og Finnlandi og að sama skapi aukna notkun á kolum á Finnlandi og Danmörku. Þá segir að á sama tíma hefur notkun á endurnýjanlegum orkugjöfum aukist gríðarlega, eins og vindorka og jarðvarmi. Sá síðarnefndi er sérstaklega nefndur í tengslum við Ísland. Íslendingar nota hlutfallslega langmest af endurnýjanlegum orkugjöfum, eins og vind, vetni og jarðvarma.
Ísland sker sig úr á margan hátt
Skýrsluhöfundar sáu víða ástæðu til að taka út sérstakan kafla um Ísland. Sérstaklega varðandi ferðamennsku, húsnæðismál, íbúaþróun, atvinnu og búsetu. Hlutfallslega flestir Íslendingar búa í borg eða bæ, 94 prósent, á meðan um 80 prósent Norðmanna búa í þéttbýlinu.
Þá er Reykjavík óeftirsóttasta höfuðborg Norðurlandanna og vermir tíunda sætið á lista sem birtur er í skýrslunni og skoðar meðal annars efnahagshorfur, þróun íbúafjölda og atvinnumöguleika svæðanna. Osló er þar í fyrsta sæti.