Tæplega 35% Íslendinga eru hlynnt því að leyfa sölu léttvíns í matvöruverslunum en 52% eru á móti því. Rúmlega 37% segjast hlynnt sölu bjórs í búðum, en ríflega helmingur er á móti. Þetta kemur fram í nýrri könnun Maskínu, sem segir andstöðuna við sölu bæði léttvíns og bjórs hafa aukist frá því í árslok 2014, þegar um 39% voru því hlynnt að léttvín væri selt í matvörubúðum en tæplega 45% á móti því. Þá voru rösklega 40% hlynnt sölu bjórs í matvörubúðum en 45% á móti.
Mikill munur er á viðhorfum fólks eftir aldri, en meðal þeirra sem eru 25 ára og yngri eru næstum 71% fylgjandi því að vín sé selt í búðum, en innan við 16% þeirra sem eru 55 ára og eldri. Andstaðan er líka meiri utan höfuðborgarsvæðisins. Sömu sögu er að segja um sölu bjórs.
Yfirgnæfandi meirihluti er andvígur því að selja sterkt áfengi í matvöruverslunum, en 71% eru á móti því.
Einungis er meirihluti fyrir sölu léttvíns meðal kjósenda Bjartrar framtíðar, en mest andstaða er meðal kjósenda Framsóknarflokksins, Vinstri grænna og Samfylkingarinnar.
807 manns svöruðu könnun Maskínu.