Tveir þingmenn kölluðu eftir því á Alþingi í dag að yfirmenn í Landsbankanum segi af sér vegna Borgunarmálsins. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmaður VG, sagði að „að mínu viti eiga bæði stjórn og bankastjóri að víkja“ og Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Framsóknarflokksins, sagði að taka yrði þannig til hendinni að „yfirstjórn bankans víki.“
Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, ræddi einnig um málið og sagði það verða flóknara og flóknara með hverjum deginum sem líði og stjórnendur Landsbankans hafi orðið margsaga í málinu. „Fjármálakerfið í heild þarf að fá yfirhalningu,“ sagði hann, nú væri tækifæri til að raða spilunum upp á nýtt og stokka upp bankakerfið.
„Dag eftir dag er okkur boðið upp á farsa. Farsa í boði Landsbankans og Borgunar. Það er ekki boðlegt hvernig þessir aðilar hegða sér og koma hér fram,“ sagði Bjarkey um málið í dag. „Það má vel vera að þessi gjörningur sé löglegur, en hann er algjörlega siðlaus.“ Hún sagði málið snúast um traust og trúverðugleika banka, sem ríkið væri komið með í fangið og hún hefði áhyggjur af.
Þorsteinn sagði málið einnig snúast um traust og trúverðugleika bankans, og væri þannig farið að snúast um allt annað og miklu meira en sölu bankans á hlut sínum í Borgun, „sem var nógu slæm.“ Nú væru Borgun og Landsbankinn farin að kenna hvoru öðru um. Það hafi mátt vera ljóst jafnvel áður en bankinn seldi hlut sinn í Borgun að til stæði að Visa Inc. keypti Visa Europe, það hafi komið fram í fjölmiðlum og í árshlutauppgjöri hjá Visa Inc. „Nú bera menn af sér og segjast ekki hafa vitað þetta. Eins og ég hef sagt hér áður er fávísi ekki saknæm en hún er rándýr.“
Bæði Árni Páll og Þorsteinn kölluðu jafnfarmt eftir því að Alþingi taki málið til athugunar. „Það er gríðarlega mikilvægt að öllum steinum verði velt við,“ sagði Árni Páll.