Stjórnarskrárnefnd hefur náð saman um tillögur að breytingum á stjórnarskránni og verður samkomulagið líklega kynnt á föstudag. Þetta hefur Kjarninn fengið staðfest, en RÚV greindi fyrst frá málinu í hádegisfréttum sínum. Samkomulagið náðist á fundi stjórnarskrárnefndar í gær, en það hefur ekki verið kynnt öllum þingflokkum enn.
Samkomulagið felur í sér tillögur um þjóðaratkvæðagreiðslur, auðlindamál og umhverfismál, samkvæmt heimildum RÚV. Gert verður ráð fyrir því að um 15% atkvæðisbærra manna geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um lög sem Alþingi samþykkir, og að auðlindaákvæði kveði á um að auðlindir séu í eigu þjóðarinnar og eðlilegt gjald komi fyrir nýtingu þeirra.
Nefndin mun funda aftur á morgun, og stefnt er að því að skila endanlegum tillögum á föstudag.