Engir kaupaukar voru greiddir eða samþykktir til starfsmanna Íslandsbanka við flutning á eignarhaldi hans til ríkisins. Auk þess var ekki samið um neinn rétt til kaupa á hlutabréfum í bankanum. Þetta kemur fram í svari Íslandsbanka við fyrirspurn Kjarnans um málið.
Oddný Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, lagði fram fyrirspurn til Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsmálaráðherra, á Alþingi í dag þar sem hún spurðist fyrir um mögulega kaupauka hjá Íslandsbanka. Kjarninn beindi í kjölfarið fyrirspurn um málið til Íslandsbanka. Í svari bankans segir að ekki hafi verið „greiddir eða samþykktir kaupaukar eða réttur til kaupa á hlutabréfum eða öðrum verðmætum í Íslandsbanka við flutning á eignarhaldi hans til ríkisins.”
Bankinn kominn í fang ríkisins
Fjármála- og efnahagsráðuneytið sendi frá sér tilkynningu 20. október í fyrra um að íslenska ríkið væri að fara að eignast annan banka, Íslandsbanka, að öllu leyti. Fyrir átti ríkið Landsbankann. Þetta var niðurstaða funda sem ráðgjafar stærstu kröfuhafa Glitnis, þáverandi eiganda 95 prósent hlutar í Íslandsbanka, og framkvæmdahópur um losun fjármagnshafta áttu á tímabilinu 25. september til 13. október vegna breytinga á stöðugleikaframlagi kröfuhafanna. Tilgangur afhendingu bankans var að slitabú Glitnis gæti mætt stöðugleikaskilyrðum stjórnvalda og gæti í kjölfarið fengið undanþágu frá fjármagnshöftum.
Í kjölfar nauðasamningssamþykktar var Íslandsbanki loks afhentur ríkinu í janúar síðastliðnum. Eignarhald bankans er sem stendur hjá fjármála- og efnahagsráðuneytinu en mun brátt færast til Bankasýslu ríkisins.
Sagðir hafa farið fram á kaupauka í fyrra
Fyrst eftir að samdist um greiðslu slitabús Glitnis á stöðugleikaframlögum til ríkisins sumarið 2015 átti hins vegar ekki að afhenda bankann ríkinu. Þvert á móti voru miklar þreifingar í gangi í fyrra um að selja bankann til erlendra aðila. Viðræður við nokkra hópa stöðu yfir um nokkurra mánaða skeið og þeir sem sýndu mestan áhuga komu annars vegar frá löndum við Persaflóa í Mið-Austurlöndum og hins vegar frá Kína. Samkvæmt heimildum Kjarnans var um að ræða risastór fyrirtæki sem eiga þegar hluti í alþjóðlegum bönkum. Einhverjir hópanna rituðu undir viljayfirlýsingu um kaup á bankanum í febrúar 2015.
Í júlí 2015 greindi Morgunblaðið frá því að Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, framkvæmdastjórar og stjórnarmenn hefðu farið fram á kaupauka í tengslum við nauðasamninga og mögulega sölu bankans. Í umfjöllun blaðsins kom fram að stjórnendurnir hefðu viljað fá allt að eitt prósent hlut í bankanum, sem yrði um tveggja milljarða króna virði miðað við bókfært eigið fé Íslandsbanka. Stjórnendur Íslandsbanka hafa ætið neitað þessari frétt Morgunblaðsins. Nú er ljóst að stjórnendurnir fá enga kaupauka við eigendaskipti á bankanum.