Hópur fólks hefur safnað miklum fjölda undirskrifta til að skora á Vigfús Bjarna Albertsson, sjúkrahúsprest á Landspítalanum, til að bjóða sig fram sem næsta forseta Íslands. Vigfús Bjarni staðfestir þetta í samtali við Kjarnann. Hann hefur ekki tekið ákvörðun, en er að íhuga málið alvarlega.
„Það er töluvert stór hópur búinn að vinna að þessu í einhvern tíma og ég stoppaði það ferli ekki þegar ég heyrði af þessu. En ég hef ekki tekið ákvörðun,” segir hann. „Ég er mjög þakklátur, þetta er vissulega mjög óvænt staða til að vera í. Mér hefur dottið ýmislegt í hug í lífinu, en þetta var svo sannarlega ekki eitt af því.”
Vigfús Bjarni segist alltaf hafa viljað gera gagn og þykir vænt um að fólk sýni honum þetta traust. Þetta sé vissulega verðugt verkefni til að gera eitthvað gott. Hann segist munu skoða málið mjög alvarlega þegar þar að kemur. Það velti alls ekki á hvaða aðrir frambjóðendur stigi fram á sjónarsviðið.
„Ef af verður, mun framboð mitt ekki verða pólitískt, heldur þvert á allar slíkar stærðir,” segir hann.
Til stendur að birta áskorunina á næstunni og samkvæmt heimildum Kjarnans er um að ræða mörg hundruð undirskriftir sem nú þegar hafa safnast. Vigfús Bjarni hefur ekki séð listann og veit ekki hversu margar undirskriftir er um að ræða.
„En ég ætla að skoða þetta alvarlega og eiga samtal við þennan hóp sem stendur fyrir þessu,” segir hann.
Vigfús Bjarni tók þátt í umræðunni um samviskufrelsi presta, frelsi þeirra til að neita að gefa saman samkynhneigð pör, sem stóð hátt síðastliðið haust. Vigfús Bjarni sagðist þá ætla að berjast fyrir því „sem prestur, kirkjuþingsmaður, stjórnarmaður í Prestafélagi Íslands, sem manneskja, að þetta hugtak fái ekki staðist í þessu samhengi. Enn og aftur ætlar fámennur hópur að ógna samfylgd þjóðar og kirkju. Nei takk.“