Gangverk hefur gert samning um sölu leyfa að Sling hugbúnaðinum fyrir 325 milljónir króna. Samningurinn felur í sér að Sling verður hluti af vöruframboði fyrir viðskiptavini þeirra sem samningurinn var gerður við, en viðskiptavinirnir eru flestir veitingastaðir og verslanir í Bandaríkjunum. Ekki fæst uppgefið að svo stöddu við hvernig var samið, en viðskiptin hafa gengið í gegn nú þegar.
Helgi Hermannsson, framkvæmdastjóri Gangverks, segir sölusamninginn viðurkenningu á góðu þróunarstarfi starfsmanna Gangverks og þörfinni á skilvirkum farsímalausnum fyrir innri samskipti fyrirtækja þar sem starfsmenn vinna á vöktum. Fyrirtækið hefur verið með viðskiptaþróun í New York frá því í fyrra, og unnið að sölu- og þróunarstarfi þar í samvinnu við viðskiptavini.
Sling hugbúnaðurinn er hannaður og þróaður af Gangverki. Fyrirtækið er leiðandi hugbúnaðarfyrirtæki í Reykjavík í snjallsímalausnum. Ásamt því að þróa Sling þjónustar Gangverk líka viðskiptavini félagsins með hugbúnaðarþróun eins og t.d. CBS Media, Sotheby's, Símann, RÚV, 365 og Össur.
Gangverk hóf að þróa Sling í lok árs 2014 og setti lausnina á markað í Júlí 2015. Þegar nota nokkur hundruð fyrirtæki Sling í Bandaríkjunum, mest veitingastaðir og verslanir þar á meðal Subway, Fridays og Dominos veitingastaðir, Holiday Inn Hotel, Rite Aid apótek ofl. Á Íslandi nota mörg fyrirtæki Sling t.d. Gló, Kaffitár og 66N.
Sling er samskipta- og vaktakerfi fyrir fyrirtæki þar sem starfsmenn vinna á vöktum og nýtist vel t.d. fyrir verslanir, veitingastaði, spítala, hótel ofl. Afar auðvelt er fyrir fyrirtæki að byrja að nota lausnina. Þau stofna reikning á www.getsling.com og bjóða starfsmönnum sínum inn í kerfið, þannig verður til innra net hvers fyrirtækis.
Sling er byggt í kringum fjóra megin hluta; vaktakerfi, skilaboðakerfi, fréttaveitu og verkefnalista kerfi. Sling er í stöðugri þróun og munu ýmsar spennandi viðbætur koma út á næstunni.
Gangverk fékk 500 þúsund Bandaríkjadala sprotafjárfestingu, eða sem nemur um 70 milljónum miðað við núverandi gengi, frá Nýsköpunarsjóði og Bandarískum fjárfestum í lok árs 2014. Félagið hefur líka notið skattaafsláttar stjórnvalda vegna nýsköpunarfyrirtækja og styrks frá Rannís. „Samanlagt hefur þetta hjálpað félaginu að ná árangri og gerir því kleift að fjölga starfsmönnum á Íslandi,“ segir Helgi, en starfsmenn Gangverks eru nú þrettán talsins.