Jeb Bush, sem sækist eftir því að verða frambjóðandi repúblikana í forsetakosningunum í Bandaríkjunum síðar á þessu ári gleymdi að greiða gjald til að endurnýja lénið www.jebbush.com í nóvember í fyrra. Þessu tóku starfsmenn kosningabaráttu Donald Trump, sem sækist einnig eftir því að verða frambjóðandi repúblikana, eftir og keyptu lénið. Þegar farið er inn á lénið www.jebbush.com er internetnotendum nú endurvísað inn á opinbera heimasíðu framboðs Donald Trump, www.donaldjtrump.com. New Stateman greindi frá.
Sú breyting er reyndar nýtilkomin. Þ.e. gestum sem ætluðu á síðu Jeb Bush var fyrst vísað inn á síðu Donald Trump fyrir nokkrum dögum síðan. Framboð Jeb Bush hefur fært stafrænan boðskap sinn yfir á nýja síðu, www.jeb2016.com, til að bregðast við þessari stöðu.
Þau tíðindi urðu annars í morgun að ný skoðanakönnun NBC og Wall Street Journal sýndi að Ted Cruz hefur tekið forystuna í kapphlaupinu um útnefningu repúblikana. Hann mælist nú með 28 prósent fylgi á landsvísu en Donald Trump, sem leitt hefur kapphlaupið nær linnulaust frá því að það hófst, mælist nú með 26 prósent fylgi. Marc Rubio kemur þar á eftir með 17 prósent fylgi, John Kasich mælist með ellefu prósent og Ben Carson með tíu prósent. Jeb Bush rekur hins vegar lestina með fjögur prósent fylgi.