InDefence-hópurinn hefur sent áskorun til Seðlabanka Íslands um að birta yfirlit yfir undanþágur föllnu bankanna og stöðugleikamat á nauðasamningum þeirra. Áskorunin kemur í kjölfar þess að Seðlabankinn lýsti því yfir í gær að hann hefði veitt síðustu undanþáguna frá fjármagnshöftum vegna uppgjörs fallinna viðskiptabanka og sparisjóða á grundvelli stöðugleikaskilyrða.
InDefence segir í yfirlýsingu að það sé veruleg hætt á að nauðasamningar „föllnu bankanna geti haft skaðleg áhrif á framgang áætlunar um afnám hafta og almenn lífskjör á Íslandi. Af þessum ástæðum breytti Alþingi lögum þannig að dómari mætti ekki staðfesta frumvarp að nauðasamningi fjármálafyrirtækis nema að mat Seðlabanka Íslands hafi sýnt að viðkomandi samningur raski ekki efnahagslegum stöðugleika á Íslandi. Í samræmi við loforð stjórnvalda um gagnsæi við losun fjármagnshafta óskar InDefence hópurinn eftir því að Seðlabanki Íslands birti stöðugleikamat fyrir sérhvert slitabú fjármálafyrirtækis sem lagt hefur fram nauðasamninga."
InDefence óskar einnig eftir því að Seðlabankinn geri grein fyrir öllum undanþágum frá gjaldeyrishöftum sem veittar hafa verið og yfirliti um upphæðir og viðtakendur á erlendum gjaldeyri og erlendum eignum sem undanþegnar hafa verið höftum.
InDefence segir að þrátt fyrir fögur fyrirheit hafi „upplýsingastreymi frá stjórnvöldum um áætlun um afnám fjármagnshafta verið takmarkað og á köflum misvísandi. Leyndarhyggja elur á tortryggni. Þar sem stjórnvöld hafa væntanlega ekkert að fela og allar upplýsingar liggja fyrir, hvetjum við Seðlabanka Íslands til veita þær strax."