Síminn ætlar að greiða hluthöfum sínum 575 milljónir í arð

orri-hauks.jpg
Auglýsing

Stjórn Sím­ans leggur til að 20 pró­sent af hagn­aði félags­ins, alls 575 millj­ónir króna, verði greidd út sem arður á árinu 2016 til hlut­hafa ­vegna frammi­stöðu Sím­ans árið 2015. Auk þess leggur stjórnin til að farið verð­i í fram­kvæmd end­ur­kaupa­á­ætl­unar á hluta­bréfum í félag­inu fyrir fjár­hæð sem nem­ur allt að 30 pró­sent af hagn­aði félags­ins á árinu 2015. Hagn­aður Sím­ans í fyrra var 2,9 millj­arðar króna og því er gert ráð fyrir að Sím­inn kaupi hluta­bréf af hlut­höfum fyrir um 870 millj­ónir króna. Þetta kemur fram í árs­reikn­ingi Sím­ans fyr­ir­ árið 2015 sem birtur var í gær.

Með því að lækk­a hlutafé sam­hliða kaupum af hlut­höfum félags­ins í stað þess að greiða út arð koma hlut­hafar Sím­ans sér undan skatt­greiðslum vegna frek­ari arð­greiðslna, en ef ­bók­fært verð hluta­bréfa er hærra eða það sama og sölu­verðið verður ekki til skatt­skyldur sölu­hagn­að­ur. Af arð­greiðslum þarf hins vegar að greiða 20 ­pró­senta fjár­magnstekju­skatt. 

Auglýsing

Stór­sókn inn á fjöl­miðla­markað

Rekstur Sím­ans gekk vel á síð­asta ári og tekjur hans námu 30.407 millj­ónum krónum á árinu. Það er ei­lítið hærra en þær voru árið 2014 og ljóst að mik­ill stöð­ug­leiki er í tekju­myndun hjá félag­inu. Hagn­aður Sím­ans dróst þó saman milli ára, var 2,9 millj­arðar króna sam­an­borið við 3,3 millj­arða króna árið 2014. Þar skipt­ir ­mestu að hrein fjár­magns­gjöld Sím­ans voru um 1,3 millj­arðar króna í fyrra en 609 millj­ónir króna árið 2014. Hreinar vaxta­ber­andi skuldir lækk­uðu um 1,3 millj­arða króna á milli ára og stóðu í 20,1 millj­arði króna um síð­ustu ára­mót.

Staða Sím­ans er mjög sterk sem stend­ur. Félagið fjár­festi mikið í fjar­skipta­innviðum í fyrra og hóf stór­sókn inn á fjöl­miðla­mark­að­inn með opnun linu­legrar dag­skrár Skjá­sEins á lands­vísu og mik­illi fjár­fest­ingu í efni, bæði inn­lendu og erlendu, sem sýnt er í sjón­varps­þjón­ustu félags­ins, jafnt línu­legri sem hliðr­aðri. Eigið fé Sím­ans var 32,8 millj­arðar króna og eig­in­fjár­hlut­fall félags­ins 52,8 pró­sent.

Umdeild sala í aðdrag­anda skrán­ingar

Sím­inn var skráð­ur á markað í októ­ber í fyrra. Aðdrag­andi skrán­ing­ar­innar var mikið til­ um­fjöll­unar í fjöl­miðlum og var harð­lega gagn­rýndur þar sem tveitr hópar keypt­u hlut í félag­inu af Arion banka á lægra gengi en bauðst í útboð­inu. Fyrst keypt­u hópur stjórn­enda Sím­ans og með­fjár­festa þeirra fimm pró­sent hlut á geng­inu 2,5 krónur á hlut. Þeir mega ekki selja þann hlut fyrr en 1. jan­úar 2017. 

Í lok sept­em­ber seldi Arion banki síðan fimm pró­sent hlut í Sím­anum til þeirra aðila ­sem voru með mest fjár­magn í stýr­ingu hjá bank­anum á geng­inu 2,8 krónur á hlut. Þessi hópur mátti selja sinn hlut 15. jan­úar síð­ast­lið­inn. Með­al­verð í útboð­i Sím­ans var 3,33 krónur á hlut og gengi bréfa í honum í dag er 3,39 krónur á hlut.

Rekstur Voda­fone einnig sterkur

Hitt fjar­skipta­fyr­ir­tækið á mark­aði, Fjar­skipti hf. (móð­ur­fé­lag Voda­fo­ne), birt­i líka upp­gjör sitt í vik­unni. Það skil­aði alls 1,3 millj­arða króna hagn­aði og jókst hann um 18 pró­sent á milli ára. Tekjur juk­ust um tæpar 500 millj­ón­ir króna og voru 13,7 millj­arðar króna í fyrra. Hreinar vaxta­ber­andi skuldir vor­u 3,9 millj­arðar króna og lækk­uðu um 14 pró­sent á milli ára. Eigið fé er um níu millj­arðar króna og eig­in­fjár­hlut­fallið 58,7 pró­sent.

Voda­fone ætlar ekki að greiða út neinn arð vegna síð­asta árs en mun halda áfram að kaupa eigin bréf af hlut­höfum sín­um. Í fyrra keypti félagið alls eigin hluti fyrir 400 millj­ón­ir króna og það áætlar að kaupa slíka fyrir 100 millj­ónir króna á þessu ári. Engin arður verður greiddur til hlut­hafa Voda­fone vegna frammi­stöðu félags­ins á árinu 2015.

Í til­kynn­ingu frá­ Fjar­skiptum vegna upp­gjörs­ins segir að mikil þróun sé í íslenska fjar­skipta­geir­an­um, ekki síst á sjón­varps­mark­aði. „Þegar má sjá aukna gagna­magns­notkun með til­komu ­Net­flix án þess að hafa haft áhrif á fjölda áskrif­enda af sjón­varps­þjón­ust­u­m ­fé­lags­ins. Hraður vöxtur er í fjölda áskrif­enda að  Voda­fone PLAY, ­sjón­varps­þjón­ustu Voda­fo­ne. Áskrif­endur eru nú í kringum 8.500 tals­ins en ­með­al­fjölgun áskrif­enda hefur verið yfir 12% á mán­uði frá því þjón­ustan var fyrst kynnt í maí síð­ast­liðn­um.“

Meira úr sama flokkiInnlent
None