„Afkoma ársins var góð í krefjandi umhverfi,“ segir Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, um afkomu fyrirtækisins í fyrra. Í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu segir að hagnaður fyrir óinnleysta fjármagnsliði hafi verið 16,7 milljarðar króna en að teknu tilliti til þeirra nam hann 10,8 milljörðum króna (84 milljónum Bandaríkjadala). Um var að ræða metár í raforkusölu hjá fyrirtækinu, en seldar voru 13,9 teravattstundir.
Tekjur minnkuðu um 17 milljónir Bandaríkjadala milli ára, og spilar lækkun á álverði þar inn í. Heildartekjur samstæðu Landsvirkjunar námu 421,5 milljónum Bandaríkjadala, eða sem nemur rúmlega 54 milljörðum króna. Árið 2014 námu tekjurnar rúmlega 438 milljónum Bandaríkjadala, eða rúmlega 56 milljörðum króna.
Rekstrarhagnaðarhlutfall (EBITDA hlutfall) hækkaði á milli ára, þótt álverð hafi farið lækkandi að undanförnu og „mikil óvissa hafi ríkt á mörkuðum“, að því er segir í fréttatilkynningu.
Hörður segir að fyrirtækið vinni, innan þess svigrúms sem það hefur, að því að svara þessari aukinni eftirspurn eftir orku. Nú standa yfir framkvæmdir við byggingu jarðvarmavirkjunar á Þeistareykjum og nú á vormánuðum munu hefjast framkvæmdir við stækkun Búrfellsvirkjunar.
Eigið fé Landsvirkjunar í árslok 2015 nam 1.916,6 milljónum Bandaríkjadala, eða liðlega 255 milljörðum króna, en eigið fé var 1.704,7 milljónir Bandaríkjadala í árslok 2014 samkvæmt
efnahagsreikningi, og leggur stjórn félagsins til að hagnaður ársins verði færður til hækkunar á eigin fé, að því er segir í skýrslu stjórnar í ársreikningi.
Heildarskuldir fyrirtækisins námu tæplega tveimur milljörðum Bandaríkjdala í árslok, eða sem nemur 254 milljörðum króna. Frá árinu 2009 hafa skuldir lækkað um 107 milljarða króna.
Stjórn félagsins mun á aðalfundi gera tillögu um arðgreiðslu til eigenda, en vísar að öðru leyti til skýringa í ársreikningnum og eiginfjáryfirlits varðandi breytingar á eiginfjárreikningum.
Ríkið er eigandi Landsvirkjunar, og sé miðað við eigið fé er það nú stærsta fyrirtæki í eigu ríkisins. Landsbankinn er með svipað eigið fé, um 250 milljarða króna miðað við síðasta birta uppgjör.
Handbært fé í árslok nam 142,1 milljón Bandaríkjadala, eða um 20 milljörðum króna, og óádregin lán 360,8 milljónum Bandaríkjadölum, eða rétt um 45 milljörðum króna. Lausafé og óádregin lán í árslok
námu því 503,0 milljónum, eða um 65 milljörðum króna.
Landsvirkjun tók lán upp á 108,5 milljónir Bandaríkjadala á árinu og greiddi fyrirtækið niður skuldir um 333 milljónir Bandaríkjadala, eða sem nemur 43 milljörðum króna.