Stjórnarskrárnefnd birti í dag drög að þremur frumvörpum til stjórnarskipunarlaga á vefnum stjornarskra.is. Eru drögin sett fram í þremur frumvörpum, að því er fram kemur á vef forsætisráðuneytisins. Frumvörpin hafa verið birt þar í heild sinni.
Fyrsta er um ákvæði um auðlindir náttúru Íslands og að þær séu þjóðareign. Annað frumvarpið um umhverfi og náttúru þar sem mælt er fyrir um ábyrgð á vernd náttúru og að varúðar- og langtímasjónarmið verði höfð að leiðarljósi.
Að lokum er lagt til að fimmtán prósent kosningarbærra manna geti kallað eftir þjóðaratkvæðagreiðslu um lög frá Alþingi, eins og þegar hafði verið greint frá.
Aðalatriði fréttatilkynningar frá stjórnarskrárnefnd voru tekin saman, með eftirfarandi hætti:
„Í fyrsta lagi er lagt til ákvæði um auðlindir náttúru Íslands. Sett
er fram almennt ákvæði um að auðlindir náttúru Íslands tilheyri íslensku
þjóðinni og jafnframt kveðið á um meginfor-sendur auðlindanýtingar; þá er mælt
fyrir um þjóðareign á náttúruauðlindum og landsréttindum sem ekki eru háð
einkaeignarrétti. Loks er sett skilyrði fyrir veitingu heimilda til nýtingar
auðlinda í eigu ríkisins og í þjóðareign og kveðið á um skyldu ríkisins til
þess að taka að jafnaði eðlilegt gjald fyrir og gæta jafnræðis og gagnsæis.
Í öðru lagi er lagt til
ákvæði um umhverfi og náttúru.
Þar verði mælt fyrir um að ábyrgð á vernd náttúru og umhverfis hvíli
sameiginlega á öllum og skuli verndin grundvallast á varúðar- og
langtímasjónarmiðum með sjálfbæra þróun að leiðarljósi. Kveðið er á um rétt
allra til heilnæms umhverfis, almannarétt og upplýsinga- og þátttökurétt
almennings.
Í þriðja lagi er lagt
til að 15% kosningarbærra manna geti knúið fram þjóðaratkvæðagreiðslu um lög frá
Alþingi. Undanskilin eru þó fjárlög, fjáraukalög, lög um skattamálefni og
lög sem sett eru til að framfylgja þjóðréttarskuldbindingum. Frestur til að
bera fram kröfu verði 4 vikur frá birtingu laganna. Þjóðaratkvæðagreiðsluna
beri að halda í fyrsta lagi 6 vikum og í síðasta lagi 4 mánuðum frá því að
staðfest krafa liggur fyrir. Enn fremur er mælt fyrir um að sama hlutfall
kosningarbærra manna geti skotið ályktunum Alþingis um heimild til
fullgildingar á þjóðréttarsamningum til þjóðaratkvæðis. Loks er lagt til að
löggjafanum sé heimilað með auknum meirihluta að ákveða að fleiri
þingsályktanir falli í þennan flokk ályktana sem hægt verði að vísa til
þjóðarinnar, þ.e. þær ályktanir sem hafa réttaráhrif eða fela í sér mikilvæga
stefnumörkun. Til að hnekkja lögum eða ályktun í þjóðaratkvæðagreiðslu þurfi meirihluti
að greiða atkvæði gegn tillögu, sem jafnframt sé að minnsta kosti 25%
kosningarbærra manna.
Unnin hafa verið drög að
skýringum við ákvæðin þar sem fjallað er um tilefni, nauðsyn og markmið, fyrri
tillögur, erlendan rétt og mat á áhrifum.