Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur eru ekki sammála um hvort selja skuli eignarhlut í Landsbankanum, þrátt fyrir að í fjárlögum sé reiknað með allt að 71 milljarði króna vegna þeirrar sölu, en fyrir liggur heimild til að selja tæplega 30 prósent hlut í bankanum.
Könnun Kjarnans sýnir glögglega að sala á eignarhlut í Landsbankanum, sem ríkið á 98 prósent hlut í, er umdeild á Alþingi og ekki augljóst að fyrir henni sé þingmeirihluti. Raunar virðist vera að svo sé ekki.
Ríkisstjórnin gæti lent í nokkrum vanda vegna þessa máls, en ekki heldur hægt að útiloka að einhver stefnubreyting verði, þegar kemur að endurskipulagningu fjármálakerfisins í heild sinni.
Sú sögulega staða sem uppi er nú, þar sem ríkið er eigandi Landsbankans, Íslandsbanka, Íbúðalánasjóðs, Byggðastofnunar og LÍN - sem samanlagt eru um 80 prósent af fjármálakerfinu - gefur tækifæri til þess að endurskoða kerfið. En það er ekki víst að þannig horfi staðan við stjórnarflokkunum, þó viljinn til þess að gera það virðist augljós innan Framsóknarflokksins.
Það mun vafalítið reyna á samstarf flokkanna nú fyrir kosningarnar eftir rúmlega ár, vegna þessa máls. Hugsanlega getur það ráðið úrslitum um það hvernig ríkisstjórnin mun koma inn í kosningarnar sjálfar.