Hillary Clinton sigraði Bernie Sanders í forvali Demókrataflokksins í Nevada í gær. Clinton hlaut 52,6% atkvæða á meðan Bernie Sanders fékk 47,3%. Sanders sagðist engu að síður vera með vindinn í bakið, og hann og hans fólk væru á mikilli siglingu.
Donald Trump sigraði í forvali repúblikana í Suður-Karólínu, sem fór einnig fram í gær. Trump vann stórsigur, fékk 32,5% atkvæða, um tíu prósentustigum meira en Marco Rubio og Ted Cruz, sem voru nánast hnífjafnir í öðru og þriðja sæti.
Jeb Bush tilkynnti í nótt, að íslenskum tíma, að hann hygðist nú hætta í baráttunni eftir léleg úrslit í fyrstu þremur forvölunum. Hann lenti í fjórða sæti í Suður-Karólínu í gær. Bush hélt tilfinningaþrungna ræðu eftir að úrslitin voru ljós. „Fólkið í Iowa, Suður-Karólínu og New Hampshire hefur talað, og ég virði þeirra ákvörðun mjög,“ sagði hann. „Ég lifi ótrúlegu lífi og fyrir mig hefur almannaþjónusta verið hápunktur lífsins.“
Bush var talinn líklegastur til að hreppa útnefningu Repúblikanaflokksins þegar hann hóf kosningabaráttuna um mitt síðasta ár. Þá var mikið fjallað um möguleikann á því að annar Clinton og þriðji Bush yrðu í framboði. Það fór þó að halla fljótt undan fæti, ekki síst vegna Donalds Trump.
Á þriðjudag kjósa svo demókratar í Suður-Karólínu og repúblikanar í Nevada. Viku síðar munu svo tólf ríki velja sína frambjóðendur.