Íslenska fyrirtækið KeyNatura, sem vinnur andoxunarefni og fleiri verðmæt efni úr þörungum, hefur tryggt sér 2,4 milljón dala, eða 311 milljóna króna, fjárfestingu frá sprota- og vaxtasjóðinum Eyri Sprotum.
Fyrirtækið var eitt þeirra sjö sprotafyrirtækja úr orkugeiranum sem tók þátt í Startup Energy Reykjavik viðskiptahraðlinum í byrjun árs 2015. Þau fyrirtæki sem það gerðu fengu öll fimm milljónir króna í hlutafé, ókeypis skrifstofuaðstöðu og aðstoð yfir 60 aðila úr atvinnulífinu og akademíunni yfir tólf vikna tímabil. Síðan þá hefur KeyNatura náð að vaxa og nú það að tryggja sér ofangreinda fjárhæð til að halda þeim vexti áfram. Það fjármagn sem Eyrir Sprotar hafa lagt fyrirtækinu til á að tryggja starfsemi KeyNatura til næstu tveggja ára hið minnsta.
Eyrir Sprotar er rekinn af Eyrir Invest í samstarfi við Arion banka, en Eyrir og Arion banki eru stærstu hluthafar sjóðsins. Aðrir fjárfestar eru lífeyrissjóðir og fagfjárfestar.
Startup Energy Reykjavik er verkefni sem haldið er úti af Arion banka, Landsvirkjun, Nýsköpunarmiðstöð Íslands og GEORG. Framkvæmd þess hefur verið í höndum Icelandic Startups (áður Klak Innovit) og Iceland Geothermal. Hraðallinn er nokkurs konar systurverkefni viðskiptahraðalsins Startup Reykjavik sem haldið hefur verið úti frá árinu 2012.
Auk þess er sérstakur viðskiptahraðall starfræktur hérlendis fyrir sprota í ferðaþjónustu, Startup Tourism. Hann mun fara fram í fyrsta sinn í vor en Kjarninn greindi frá því í janúar hvaða tíu hugmyndir hafi verið valdar til þátttöku í honum.