Börn og unglingar geta þurft að bíða í allt að eitt og hálft ár eftir nauðsynlegri geðheilbrigðisþjónustu. Eftirspurn eftir þjónustu stofnana sem sinna geðheilbrigðismálum barna og unglinga hefur stóraukist síðustu ár og á sama tíma hefur biðtími lengst.
Síðla árs 2015 biðu rúmlega 390 börn eftir þjónustu Þroska- og hegðunarstöðvar, 120 voru á biðlista á Barna- og unglingageðdeild Landspítalans (BUGL) og 208 biðu eftir þjónustu Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins.
Þessi langi biðtími er óviðunandi og gengur gegn lögbundnum skyldum ríkisins. Biðin stefnir líka langtímahagsmunum ríkisins og velferð einstaklinga í tvísýnu. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Ríkisendurskoðunar um geðheilbrigðisþjónustu við börn og unglinga. „Ef ekki er tekið á markvissan hátt á geðheilsuvanda barna og unglinga um leið og hans verður vart aukast til muna líkur þess að þungbærar og langvarandi afleiðingar, jafnvel örorka, komi síðar fram.“
Raunveruleg þörf barna og unglinga fyrir ítar- og sérþjónustu í geðheilbrigðismálum hefur líka aldrei verið metin, en ríkisendurskoðun hvetur velferðarráðuneytið til að meta þessa þörf og ákveða hvernig henni verði best mætt með skipulögðum hætti.