Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, forstöðumaður mennta- og nýsköpunarsviðs Samtaka atvinnulífsins, íhugar að bjóða sig fram til forseta Íslands. Þorgerður staðfestir þetta í samtali við Kjarnann, en Fréttatíminn greindi frá málinu í dag.
Þorgerður Katrín er fyrrverandi menntamálaráðherra og varaformaður Sjálfstæðisflokksins. Hún sat á Alþingi fyrir flokkinn á árunum 1999 til 2013.
Þorgrímur og Sturla óákveðnir
Fjórir forsetaframbjóðendur eru byrjaðir að safna undirskriftum. Nauðsynlegt er að skila inn 1.500 nöfnum samtals úr öllum landsfjórðungum um miðjan maí til að geta boðið sig fram.
Ari Jósepsson segir undirskriftasöfnunina ganga vel. Það sama segir Elísabet Kristín Jökulsdóttir. Þau Ástþór Magnússon og Hildur Þórðardóttir segjast bæði vera rétt að byrja í sinni söfnun og undirstrika að nægur tími sé til stefnu. Bæði eru þau byrjuð í sinni kosningabaráttu.
Þorgrímur Þráinsson rithöfundur undirstrikar að hann sé enn að ákveða hvort hann muni bjóða sig fram eða ekki. Hann sé enn að meta kosti og galla og hefur ekki hafið undirskriftarsöfnun.
Sturla Jónsson bílstjóri tekur í sama streng og Þorgrímur og segist enn vera að hugsa málið.
Mörg nöfn í umræðunni
Fleiri hafa verið orðaðir við framboð. Stefán Jón Hafstein hélt opinn fund á Kaffi Sólon í síðustu viku þar sem forsetahlutverkið var rætt. Undirskriftarsöfnun er hafin til stuðnings Vigfúsi Bjarna Albertssyni sjúkrahúspresti til að bjóða sig fram og Gallupkönnun var gerð í síðustu viku til að kanna grundvöll fyrir framboði Höllu Tómasdóttur athafnakonu. Hrannar Pétursson, fyrrverandi upplýsingafulltrúi Vodafone og ráðgjafi í stjórnarráðinu, er enn að melta hvort hann fari fram, Andri Snær Magnason rithöfundur er enn að velta málum fyrir sér, Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, hefur ekki neitað því að hún ætli í framboð og Össur Skarphéðinsson, þingmaður Samfylkingar, hefur verið þögull sem gröfin.