Frosti Sigurjónsson, þingmaður Framsóknarflokksins og formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, kallar eftir því að Íslandsbanka verði sett ný eigendastefna sem takmarki mjög möguleika bankans til þess að fara í útrás til útlanda. Íslandsbanki sé orðinn alfarið ríkisbanki og gera verði við hann nýjan samning um þetta sem fyrst.
Frosti ræddi þetta í ljósi fjárfestinga bankans og íslenskra lífeyrissjóða í norskum olíuiðnaði, í fyrirtækjunum Fáfni Offshore og Havila. Eins og Kjarninn hefur greint frá lánuðu Íslandsbanki og Arion banki norska skipafyrirtækinu Havila háar fjárhæðir árin 2013 og 2014. Havila rambar nú á barmi gjaldþrots og er í viðræðum við kröfuhafa sína um endurskipulagningu á skuldum. Sömu sögu er að segja um Fáfni Offshore, sem íslenskir lífeyrissjóðir og Íslandsbanki og Landsbanki hafa fjárfest verulega í.
Frosti lýsti yfir áhyggjum sínum af þessari útrás. Það sé stefna þessara banka að fara í aðra útrás og fjárfesta erlendis, meðal annars á meðan öll þjóðin sé í höftum. Þá sé ekki verið að dreifa áhættunni heldur þjappa henni saman, „inn í einhvern geira sem við höfum ekkert mikið vit á, norskan olíuiðnað.“
Þá sagði hann eitthvað mikið í ólagi þegar íslenskir lífeyrissjóðir þjappi áhættu sinni inn í þennan geira. „Hvers vegna þurfa norskir framkvæmdamenn í norskum olíuiðnaði að leita til Íslands eftir fjármagni? Er ekki eitthvað að? Eru ekki vextirnir lægri í Noregi? Það er verið að taka áhættu, það er eitthvað í ólagi.“
Auk þess sem hann kallaði eftir því að gerður verði nýr samningur við Íslandsbanka og honum settar meiri skorður kallaði hann eftir því að íslenskir lífeyrissjóðir komi fram og lýsi því hver þeirra stefna er varðandi fjárfestingar í útlöndum.