Hagnaður Arion banka á árinu 2015 nam 49,7 milljörðum rkóna, samanborið við 28,7 milljarða árið 2014. Það er langsamlega besta afkoma bankans frá stofnun hans, haustið 2008, en hagnaður nemur tæplega 137 milljónum á hverjum degi.
Í fréttatilkynningu frá Arion banka segir að uppgjörið litist meðal annars af stórum úrlausnarmálum. „Afkoma Arion banka á árinu 2015 ber þess merki að til lykta voru leidd nokkur umfangsmikil úrlausnarmál sem vörðuðu mikla hagsmuni fyrir bankann. Fyrst og fremst er um að ræða sölu bankans á hlutum í fimm félögum: Reitum fasteignafélagi hf., Eik fasteignafélagi hf., Símanum hf., alþjóðlega drykkjarframleiðandanum Refresco Gerber og Bakkavor Group Ltd. Öll voru félögin skráð í kauphöll hér á landi eða erlendis, nema eignarhluturinn í Bakkavor Group sem var seldur í kjölfar söluferlis í umsjón Barclays bankans. Þannig nam hagnaður Arion banka á árinu 2015 49,7 milljörðum króna eftir skatta samanborið við 28,7 milljarða króna á árinu 2014. Arðsemi eigin fjár var 28,1% samanborið við 18,6% árið 2014,“ segir í tilkynningunni.
Hagnaður af reglulegri starfsemi nam 16,8 milljörðum króna samanborið við 12,7 milljarða árið 2014, eins og sjá má í ársreikningi bankans.
Heildareignir námu í árslok 2015 rúmlega þúsund milljörðum króna samanborið við 933,7 milljarða króna í árslok 2014 og eigið fé hluthafa bankans nam 192,8 milljörðum króna í árslok og hafði hækkað um 20 prósent milli ára.
Hagnaður á fjórða ársfjórðungi nam 24,3 milljörðum króna og eykst verulega milli ára. Ástæðuna má fyrst og fremst rekja til virðishækkunarinnar á eignarhluta í Bakkavor Group Ltd.
Umtalsverðar virðisbreytingar urðu á lánabók bankans á árinu. Niðurfærslur tengjast að mestu lánum til erlendra félaga í þjónustu tengdri olíuleit og lánum sem bankinn yfirtók frá AFL – sparisjóði á árinu, segir tilkynningu. Er þar meðal annars vitnað sérstaklega til lána til norska félagsins Havila Shipping ASA, sem nú þegar hefur fært niður skipaflota sinn um 21 milljarð króna. Ekki kemur nákvæmlega fram hversu mikið útlánatapið er vegna þessa.
Hækkanir tengjast að mestu uppgreiðslu lána, bæði einstaklinga í tengslum við leiðréttingu ríkisstjórnarinnar og fyrirtækja í tengslum við endurskipulagningu og sölu.
Eiginfjárhlutfall bankans í lok ársins 2015 var 24,2 prósent en var 26,3 prósent í árslok 2014. Lækkunin er einkum tilkomin vegna arðgreiðslu að fjárhæð 12,8 milljarðar króna og fyrirframgreiðslu á víkjandi lánum frá ríkinu að fjárhæð 20 milljarðar króna.
Íslenska ríkið á 13 prósent hlut í Arion banka, en kröfuhafar Kaupþings afganginn. Bankinn er í söluferli.