Grikkir hafa kallað nú sendiherra sinn til baka frá Austurríki, sem er nýjasta vendingin í flóttamannadeilum ESB. Ástæðan er sú að Austurríkismenn héldu fund ásamt ríkjum Balkanskaga um það hvernig taka beri á flóttamannavandanum í Evrópu. Grikkjum, sem taka á móti mjög stórum hluta flóttamannanna, var ekki boðið á fundinn.
Þetta þykir Grikkjum óvinalegt og því hefur sendiherrann verið kallaður heim til ráðgjafar. Í tilkynningu frá gríska utanríkisráðuneytinu segir að þetta sé gert til að viðhalda vingjarnlegum samskiptum ríkjanna og þjóðanna tveggja. Ekki sé hægt að fást við vandamálin innan Evrópusambandsins með hugsanahætti og aðferðum sem eigi rætur sínar að rekja til nítjándu aldarinnar.
Tíu Balkanríki voru á fundinum í Austurríki og komu sér þar saman um aðgerðir til að reyna að hefta komu flóttamanna. Austurríki, Serbía og Makedónía hafa nú þegar gripið til slíkra aðgerða, sem hefur reitt Grikki til reiði. Þeir hafa varað við því að það gangi ekki að leggja byrðarnar á eitt ríki, þannig leysist málið ekki.
Ráðherrar frá Evrópusambandsríkjum og ríkjum Balkanskagans funda nú í Brussel til að reyna að sætta ólík sjónarmið í málinu. Tillögur Balkanríkjanna og Austurríkis verða kynntar á fundinum, en meðal þess sem ríkin vilja er að taka fingraför af öllum sem koma til landanna og snúa við öllum þeim sem ekki hafa vegabréf eða eru með fölsk skilríki. Þá vilja þau aðeins taka við flóttamönnum sem þeir meta í mikilli þörf fyrir vernd, sem sum stjórnvöld vilja meina að þýði að aðeins verði tekið við Írökum og Sýrlendingum. Makedónar snéru afönsku flóttafólki í hundraðatali við á landamærum Grikklands um helgina.
Gríski ráðherrann Yannis Mouzalas sagði við blaðamenn í Brussel að Grikklandi myndi ekki sætta sig við að verða „Líbanon Evrópu“, einhvers konar geymslustaður fyrir fólk. Milljón sýrlenskir flóttamenn eru í Líbanon.