Fyrrum forseti Mexíkó, Vicente Fox, segir að Donald Trump minni hann á Adolf Hitler. „Í dag ætlar hann að fara með þjóðina aftur til hinna gömlu tíma átaka, stríðs og alls. Ég meina, hann minnir mig á Hitler. Þannig er hann farinn að tala,“ sagði Fox í viðtali við Anderson Cooper á CNN.
„Hann hefur móðgað Mexíkó, Mexíkóa og innflytjendur. Hann hefur móðgað páfann. Hann hefur móðgað Kínverja. Hann hefur móðgað alla,“ sagði Fox í viðtalinu.
Á fimmtudag var hann í öðru viðtali þar sem hann gagnrýndi Trump harðlega fyrir ummæli sín og þá stefnu að láta byggja vegg við landamæri Mexíkó, sem Mexíkóar muni borga fyrir. „Ég ætla ekki að borga fyrir þennan helvítis (e. fucking) vegg,“ sagði Fox þá. Trump krafðist þess í kjölfarið að Fox bæðist afsökunar á orðnotkun sinni, en það segist Fox alls ekki ætla að gera.
Fox er ekki fyrsti maðurinn til að líkja forsetaframbjóðandanum Donald Trump við nasistaforingjann Hitler. Stjúpsystir Önnu Frank komst í fréttir í fyrra fyrir að segja hann hegða sér eins og „annar Hitler“ og fyrrverandi ríkisstjóri New Jersey, Christine Todd Whitman notaði Hitlerslíkingu þegar hún ræddi um þá stefnu Trump að banna múslimum að koma til Bandaríkjanna.