Hvernig notum við sjónvarp eftir tíu ár?
Nýr þáttur hóf göngu sína í hlaðvarpi Kjarnans í vikunni, sem þýðir að nú er hlaðvarp á dagskrá Kjarnans á hverjum degi vikunnar. Þátturinn heitir Markaðsvarpið og er í umsjón Bjarka Péturssonar og Trausta Haraldssonar. Í fyrsta þættinum fengu þeir Pálma Guðmundsson, forstöðumann ljósvakamiðla hjá Símanum, til að lýsa framtíðarsýn sinni á notkun sjónvarp, ungu kynslóðinni, samkeppninni og mörgu fleiru.
Smokkar og íþróttakennarar
Útvarp Ísafjörður fór sem fyrr um víðan völl á landsbyggðinni í þætti vikunnar. Búvörusamningar, Vestmannaeyjar og marhnútar í viftum komu við sögu, en einnig var mikið rætt um Laugarvatn. Bæði var fjallað um færslu íþróttakennaranámsins þaðan til Reykjavíkur og svo dúkkuðu upp fréttir um smokkasjálfsala á Laugarvatni.
Hvers vegna eru sinfóníuhljómsveitir reknar af ríkjum Evrópu?
Birgir Þór Harðarson hefur undanfarið sökkt sér í heim sinfónía, og í Þukli vikunnar ræddi hann við Árna Heimi Ingólfsson, listrænan ráðgjafa Sinfóníuhljómsveitar Íslands, um hljómsveitir, tónlist og sinfóníur.
Raunhagkerfið
Árni og Grétar fengu Daníel Rúnarsson í heimsókn í Hismið að þessu sinni. Þeir fóru yfir strætóbílstjóra sem eiga undir högg að sækja, vinnudeiluna hjá Rio Tinto þar sem grjótharðir hafnarverkamenn deila við stjórnendur, og um þá stórfrétt að ÍNN sé til sölu. Daníel er einnig á heimavelli þegar kemur að síðasta vígi raunhagkerfisins á höfuðborgarsvæðinu - Höfðunum.
Allir í forsetaframboð
Í Kvikunni þessa vikuna var rætt um það hvort þriðji hver maður íhugi forsetaframboð á Íslandi. Þá ræddu þær Þórunn Elísabet og Sunna Valgerðardóttir um milljarða hagnað bankanna og háar bónusgreiðslur, afarkosti sem Píratar eru farnir að setja, ógagnsæið í búvörusamningum og þá merkilegu staðreynd að það lítur út fyrir að hvalveiðum verði hætt á Íslandi.
Facebook-takkinn er ömurlegur
Stóridómur var kveðinn upp í mál nýjustu breytinganna á Facebook í Tæknivarpinu þessa vikuna, og niðurstaðan var sú að nýi like-takkinn er ömurlegur. Gunnlaugur Reynir ræddi við Guðmund Jóhannsson hjá Símanum og Hjalta Harðarson framkvæmdastjóra Kjarnans, um Facebook, hin ýmsu tæki og meintan dauða línulegs sjónvarps.