Hægt verður að vísa hælisleitendum, sem koma frá ríkjum sem þykja örugg og umsóknir þeirra metnar bersýnilega tilhæfulausar, úr landi strax og Útlendingastofnun hefur úrskurðað í málum þeirra. Þetta er meðal þess sem lagt er til í frumvarpi meirihluta allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis um breytingar á útlendingalögum. Frumvarpinu er ætlað að bregðast við miklli fjölgun flóttamanna og hælisleitenda hér á landi.
Undanfarin ár hefur fjöldi fólks frá ríkjum Balkanskagans sótt um hæli hér á landi. Þannig komu 42% allra hælisumsókna í fyrra frá þessum ríkjum, og þar af voru Albaníumenn fjölmennastir, 30% allra hælisleitenda hérlendis. Ríki eins og Albanía eru hins vegar talin örugg ríki og nánast öllum umsóknum um hæli er hafnað.
Samkvæmt útlendingalögum má ekki láta umsækjendur um hæli eða vernd gegn ofsóknum yfirgefa landið fyrr en ákvörðun í málum þeirra er endanleg. Þetta gildir þó ekki þegar efnismeðferð umsóknar er synjað, þegar hælisumsóknir eru komnar til meðferðar í öðru landi eða þegar Útlendingastofnun telur augljóst að aðstæður séu ekki þannig að viðkomandi sé flóttamaður eða hafi ástæðu til að óttast ofsóknir. Við þessi skilyrði má vísa fólki strax úr landi og það er við þennan kafla laganna sem til stendur að bæta við lið um fólk sem kemur frá öruggum upprunaríkjum og er ekki talið vera flóttamenn.
Þessir einstaklingar munu þó áfram geta kært úrskurði stofnunarinnar til kærunefndar útlendingamála, en þurfa að fara til síns heima og bíða niðurstöðu þaðan.
Unnur Brá Konráðsdóttir, formaður allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis, segir að þetta sé þröngur hópur fólks sem breytingarnar taki til. Hælisleitendakerfið sé lítið og það sé ætlað fólki í neyð. „Við viljum að neyðarkerfið sé fyrir þá sem eru í neyð.“
Hún segir að þegar heildarendurskoðun á útlendingalögum, sem nú er í umsagnarferli hjá innanríkisráðuneytinu, verði orðin að lögum muni aðstæðurnar breytast. Þá verði auðveldara fyrir fólk frá þessum ríkjum að sækja um dvalarleyfi hérlendis. Þessi lagabreyting er því eins konar millileikur til að bregðast við miklum fjölda og álagi í kerfinu. Nauðsynlegt sé að hafa útlendingalög í sífelldri endurskoðun, þannig sé það í nágrannaríkjum okkar.
Stækka kærunefnd útlendingamála
Einnig stendur til að fjölga nefndarmönnum í kærunefnd útlendingamála úr þremur í sjö, og þar af verða tveir í fullu starfi við að úrskurða í kærumálum.
Kærunefnd útlendingamála er fremur ný, en hún hóf störf 1. janúar 2015. Hjörtur Bragi Sverrisson er formaður nefndarinnar og er í fullu starfi hjá nefndinni. Í byrjun síðasta árs störfuðu fjórir lögfræðingar ásamt honum hjá nefndinni en þeim hefur þegar verið fjölgað í sjö. Þá starfar einn ritari hjá nefndinni. Verði frumvarpið að lögum verður varaformaður nefndarinnar einnig í fullu starfi og formaður og varaformaður munu geta úrskurðað einir í ákveðnum málum. Með fleiri nefndarmönnum á að vera hægt að funda oftar, auk þess sem nefndin mun geta starfað í deildum.
Fjöldi umsókna um alþjóðlega vernd á Íslandi tvöfaldaðist frá 2014 til 2015 og gert er ráð fyrir því að þessi fjölgun haldi áfram og yfir 600 manns muni sækja um hæli á Íslandi áður en árið 2016 er liðið. Kærunefnd útlendingamála hefur ekki náð að halda í við markmið stjórnvalda um að málsmeðferðartími sé ekki lengri en 90 dagar. „Brýnt er að brugðist verði strax við til að styrkja og hraða málsmeðferð umsókna um alþjóðlega vernd,“ segir í greinargerð með frumvarpinu.