Þrettán manns var sagt upp störfum í Símanum í morgun, en uppsagnirnar eru liður í hagræðingu og áherslubreytingum hjá fyrirtækinu. Þetta hefur Kjarninn fengið staðfest. Uppsagnirnar snúa að rekstri markaðs- og vefdeilda Símans, en verkefnum þessara deilda verður fækkað og önnur færast úr húsi, samkvæmt Gunnhildi Örnu Gunnarsdóttur, upplýsingafulltrúa Símans.
„Áherslubreytingin er gerð til að verja samkeppnishæfni Símans á markaði. Mikilvægt skref í þeirri vegferð er að rekstrarkostnaður lækki og boðleiðir innanhúss styttist,“ segir Gunnhildur í pósti til Kjarnans.
„Síminn stofnaði vefþróunarteymi sitt árið 2013. Verkefni þess hafa verið ærin. Meðal annars hefur verið skipt um heimasíðu, þjónustuvefir einstaklinga og fyrirtækja orðið að mikilvægum þætti í þjónustu okkar og app að þjónustunni smíðað og gefið út. Einnig var þróað sjónvarpsapp fyrir fartölvur. Markaðsdeild Símans hefur vaxið og breyst með sameiningu Skjásins og Símans. Fjöldi verkefna hefur verið mismikill eftir árstíðum og þau breyst með sameiningunni. Ákvörðun um framvindu verkefna innan deildanna verður áfram innan Símans en framkvæmdin í höndum samstarfsaðila hverju sinni.“
Áherslubreytingin er sögð gerð til að verja samkeppnishæfni fyrirtækisins á markaði. „Mikilvægt skref í þeirri vegferð er að rekstrarkostnaður lækki og boðleiðir innanhúss styttist.“
Önnur uppsögn Símans á árinu
Ein tilkynning um hópuppsögn barst Vinnumálastofnun í janúar og var hún frá Símanum, þegar 14 manns misstu vinnuna. Taka þær gildi á tímabilinu mars til maí.
Samkvæmt upplýsingum frá Vinnumálastofnun er enn verið að vinna úr tilkynningum sem bárust vegna hópuppsagna í febrúar og verða þær birtar á miðvikudag.
Þegar atvinnurekendur hyggjast segja upp fjölda manns er ferlið þannig að fyrst er haft samráð við trúnaðarmenn og stéttarfélag. Upplýst er um hvað hægt er að gera til að lágmarka skaðann og í kjölfarið er fyllt út eyðublað um yfirvofandi hópuppsögn sem sent er til Vinnumálastofnunar fyrir þau mánaðarmót sem uppsagnirnar eiga að taka gildi.
Ekki er búið að birta samantekt Vinnumálastofnunar um hópuppsagnir á síðasta ári. Árið 2014 var 279 manns sagt upp í fjöldauppsögnum, þar af 62 í upplýsinga- og útgáfugeiranum.