Endurskoðuð eigendastefna ríkisins um fjármálafyrirtæki verður að öllum líkindum kynnt opinberlega á næstu vikum. Núverandi eigendastefna er frá árinu 2009 og kynnti Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, drög að endurskoðaðri stefnu fyrir ríkisstjórn í morgun.
Herða á kröfum við sölu á eignum
Bjarni sendi bréf til Bankasýslu ríkisins 11. febrúar síðastliðinn, vegna sölu Landsbankans á hlut sínum í Borgun, þar sem fram kom að gert sé ráð fyrir að hert verði á kröfum við sölu á eignum þeirra fjármálafyrirtækja sem stefnan nær til.
Ein ástæða endurskoðunarinnar er breytt umgjörð fjármálaumhverfi í landinu og hinar miklu breytingar á eignarhaldi ríkisins á fjármálastofnunum. Samkvæmt heimildum Kjarnans er tilgreint í stefnunni að munur geti verið á áherslum eftir eignahlut, það er að segja hvort ríkið eigi 98 prósent í banka, eða 13 prósent eins og í tilviki Arion banka. Ekki er búist við því að stefnan í heild verði endurskoðuð, enda margt þar sem enn eigi vel við. Bjarni mun kynna endurskoðaða stefnu fyrir þinginu en það liggur ekki enn fyrir með hvaða hætti; hvort það verði með skýrslu eða sérstakri umræðu eða með öðrum hætti. Leitað verður almennra umsagna varðandi breytingarnar.
Eigendastefnan tilgreind í nýjum lögum
Í nýjum lögum um opinber fjármál segir að í eigendastefnu skuli gera grein fyrir markmiðum ríkisins með eignarhaldinu, ásamt þeim grunngildum sem skulu gilda um samskipti og upplýsingagjöf milli eigenda og félags. Þá sé heimilt fyrir ráðherra að að setja sérstaka stefnu fyrir einstök félög eða starfsemi á afmörkuðum sviðum.
Í lögunum segir einnig að ráðherra eða ríkisaðili sem fari með fyrirsvar eignarhluta ríkisins í félagi, skuli hafa eftirlit með að eigandastefnu sé framfylgt í starfsemi félaga í eigu ríkisins. Ef félag er í eigu fleiri aðila en ríkisins skulu þeir sem kjörnir eru í stjórn þess fyrir hönd ríkisins taka mið af þeim meginsjónarmiðum sem fram koma í þeirri eigandastefnu sem sett hefur verið fyrir viðkomandi svið eða félag.
Þá segir einnig í lögunum að ráðherra tilnefni í stjórnir félaga sem ríkið á eignarhlut í á grundvelli hæfni og menntunar eða reynslu. Ráðherra setur reglur um almenn og hlutlæg skilyrði fyrir vali til setu í slíkum stjórnum og birtir þær opinberlega sem hluta af eigandastefnu.