Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, elur á ótta fólks við innflytjendur „og hoppar á vagn popúlistar bæði í Evrópu og forsetaframbjóðandinn Donald Trump í Bandaríkjunum keyra.“ Þetta sagði Oddný G. Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, á þingi í dag. Hún spurði Eygló Harðardóttur félags- og húsnæðismálaráðherra um ummælin sem Ásmundur lét falla á þingi í gær. Þá sagðist hann meðal annars vilja skoða að snúa flóttamönnum og hælisleitendum við „til síns heima“ á flugvellinum í Keflavík, og að endurskoða ætti opin landamæri landsins.
Eygló svaraði því til að hún væri mikill stuðningsmaður EES og væri ekki þeirrar skoðunar að Ísland ætti að ganga úr Schengen eða fara að taka upp vegabréfaeftirlit. „Ég tel að það sé mjög mikilvægt að við gerum okkar sem fullvalda þjóð, öxlum okkar ábyrgð. Tökum á móti flóttamönnum í samræmi við okkar alþjóðlegu skyldur og gerum það eins vel og við mögulega getum.“
Hún sagði að Ísland ætti að taka á móti kvótaflóttamönnum, það hefði alltaf verið hennar stefna, og að um leið og allur flóttamannahópurinn frá Sýrlandi sem átti að koma í byrjun árs væri kominn til landsins yrði óskað eftir frekari gögnum frá Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna um móttöku næsta hóps.
Harðlega gagnrýndur Ásmundur
Ásmundur hefur verið harðlega gagnrýndur fyrir ummæli sín, ekki síst úr eigin flokki. Unnur Brá Konráðsdóttir, formaður allsherjar- og menntamálanefndar, hefur m.a. sagt að ummælin gangi þvert gegn stefnu flokksins í þessum málum.
„Það er mikilvægt að við skoðum það hvort það sé nauðsynlegt á þessari stundu að flóttamönnum, eða hælisleitendum, sé snúið við í Keflavík og þeir sendir aftur til síns heima,“ sagði Ásmundur í gær. „Flóttamannastraumurinn er stórkostlegt vandamál eins og við höfum heyrt á undanförnum mánuðum. Svíar og Danir hafa lokað landamærum sínum til að takmarka komu flóttamanna og til að geta fylgst með því hverjir koma til landsins. Austurríkismenn og Balkanlöndin hafa fundað sérstaklega vegna vanda Schengen-svæðisins en Grikkland er galopið og þar streymir flóttafólk inn sem aldrei fyrr og á þá greiða leið inn í Schengen-löndin.“
Hann spurði því næst hvort Íslendingar ættu að fara að ráðum Svía og Dana og takmarka aðgengi fólks til landsins eins og var fyrir tilkomu Schengen.
„Ég auðvitað þekki það af eigin raun hvað það er erfitt að taka þátt í þessari umræðu. Maður er rifinn í sig af góða fólkinu og fjölmiðlum ef maður þorir að opna munninn og hafa skoðun. Fólkið í landinu þorir ekki að opinbera skoðun á þessum málum,“ sagði Ásmundur. Hann sagðist því telja að í þingsal þyrfti að ræða hvort ekki þurfi að gera breytingar á opnum landamærum landsins. „Ég held að það sé mál að linni.“