Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, veltir nú fyrir sér að bjóða sig fram til forseta Íslands, í kjölfar þess að hún hefur verið að fá áskoranir um slíkt. Þetta kemur fram í viðtali við hana í Stundinni í dag. Þar er einnig sagt frá því að Katrín mælist með mestan stuðning í embætti forseta Íslands í nýrri skoðanakönnun sem MMR hefur gert fyrir Stundina. Alls segjast 37,5 prósent svarenda að þeir telji að Katrín komi til greina sem næsta forseti Íslands og 23 prósent sögðust líklegir til að kjósa hana.
Katrín segir í viðtalinu að forseti eigi að leggja áherslu á umhverfisvernd, mannréttindi, menningu og lýðræði.
Skoðanakönnun Stundarinnar sýnir sjö til átta prósenta stuðning við ýmsa aðra frambjóðendur. Þeir eru Davíð Oddsson, Stefán Jón Hafstein, Salvör Nordal, Ólafur Jóhann Ólafsson, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir og Andri Snær Magnason. 23 prósent stuðningsmanna Sjálfstæðisflokksins vilja Davíð Oddsson, ritstjóra Morgunblaðsins, sem næsta forseta.
Könnun Stundarinnar stóð yfir dagana 23. febrúar til 1. mars. Yfir 900 manns tóku þátt í könnuninni.
Í samtali við Kjarnann í janúar sagði Katrín að hún útilokaði ekki að bjóða sig fram til forseta en að framboð væri þó ekki á dagskrá. „Ég hef þetta ekki í hyggju,” undirstrikaði Katrín í samtali við Kjarnann þá.