Íslenski markaðsdagurinn verður haldinn hátíðlegur með veglegri ráðstefnu í Háskólabíói á morgun, 4.mars. Í tilefni af því var ákveðið að vera með sérstakan þátt af Markaðsvarpinu þar sem rætt var við Hólmfríði Einarsdóttur, markaðsstjóra Íslandsbanka og Kristján Geir Gunnarsson, markaðsstjóra hjá Nóa Siríus.
Rætt er almennt um markaðsmál á Íslandi, hvað skiptir mestu máli, hvað gengur vel og hvað má gera betur. Einnig er rætt um Y kynslóðina og þarfir þessa hóps á íslenska markaðnum. Að lokum er rætt um Ímark og virkni félagsins í markaðsstarfi á Íslandi.
Áhugaverð erindi verða flutt á markaðsdeginum auk þess sem ÁRAN verður veitt fyrir árangursríkustu auglýsingaherferðina ársins 2015.
Á meðal fyrirlesara á ÍMARK deginum eru Karina Kjærgaard, yfirverkefnastjóri stefnumörkunar markaðs- og neytendamála hjá LEGO, og Jenny Hermanson, viðskiptastjóri hjá Spotify fyrir Norðurlandamarkað.
Síðdegis verða Íslensku auglýsingaverðlaunin afhent, en þau eru veitt í fjölmörgum flokkum til þeirra sem þótt hafa skarað framúr í auglýsinga- og markaðsmálum árið 2015.